Samantekt

 1. 1920-1926: Tímaritið „Gralsblöð“, Gralsboðskapur útgáfa 1926
 2. 1926-1931: Tímaritið „Kallið“, Gralsblöð, Gralsboðskapur útgáfa 1931
 3. 1931-1938: Viðbrögð við Gralsboðskapnum, tímaritið „Röddin“
 4. 1938-1941: Endurskoðun Gralsboðskaparins, Lokaútgáfa
 5. Samantekt
 6. Viðauki

 

Kafli 05

Þegar lesendur minnast á „gamla“ boðskapinn er átt við „stóru útgáfuna“ frá árinu 1931, I. bindi af „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ sem út kom 1934 og staka fyrirlestra sem út höfðu komið allt til loka ársins 1937 (að hluta til í tímaritinu „Röddin“). Andspænis þessum ritum eru síðan I., II. og III. bindi Gralsboðskaparins „Í ljósi sannleikans“ – „Lokaútgáfa“. Þá er Gralsboðskapurinn „Í ljósi sannleikans“, stóra útgáfa frá 1931 oft talin sem hinn „eiginlegi“ boðskapur eða „frumgerð“ Gralsboðskaparins. Þá er látið í það skína að útgáfan frá 1931 hafi á vissan hátt „fallið alsköpuð af himni ofan“ en að „Lokaútgáfan“ sé endurskoðun og efasemdir látnar fljóta með um það hvort Abd-ru-shin hafi sjálfur unnið þessa endurskoðun. Menn leiða þá hjá sér þá staðreynd, eða vita ekki betur, að „stóra útgáfan“ frá 1931 líkt og „Lokaútgáfan“ var niðurstaða þróunarvinnu. Samanborið við „litlu útgáfuna“ frá 1926 breytti Abd-ru-shin í „stóru útgáfunni“ niðurröðuninni, tók inn nýja fyrirlestra og gerði ýmsar aðrar lagfæringar ritstjórnarlegs eðlis (sem til dæmis litu að réttritun og endurtekningum).

Í lokaorðum „stóru útgáfunnar“ 1931 færir hann í letur vitneskjuna um andlegan uppruna sinn og um þá hjálp sem í henni felst mönnunum til heilla.

En þó svo að Abd-ru-shin segi þar að hann hafi nú lokið boðskap sínum til mannanna er ekki þar með sagt að hann hafi ekki fleira fram að færa, því hann samdi eftir það fjöldann allan af fyrirlestrum. Með fyrirlestrunum á þessu formi var hann hins vegar búinn að bera á borð handa samtímamönnum sínum „grundvallartæki“ sem gerði þeim kleift að koma í Gralsboðskapnum auga á hjálp skaparans í þágu mannsins. Þá fyrst voru þeir færir um að skilja og færa sér í nyt ítarlegri útskýringar í ritinu „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“.

Setning hans úr eftirmála „Hvernig skilja ber boðskapinn“ („Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ I. bindi) „… boðskap minn verðið þið að láta óbreyttan…“ hefur oft verið skilin sem rök sem „sanni“ að þessari útgáfu megi ekki breyta. Sú ábending snertir þó eingöngu okkur sem áheyrendur eða lesendur en ekki höfundinn sjálfan. Sem boðberi Gralsboðskaparins gat hann að sjálfsögðu breytt forminu.

Í þremur samningum höfundarins Abd-ru-shin við útgáfufyrirtækið „Der Ruf“ GmbH í München 1.10.1930, 19.9.1932 og 28.1.1935 er líka kveðið skýrt á um þennan möguleika til breytinga.

„Herra Bernhardt skuldbindur sig til að annast leiðréttingar sem nauðsynlegar kunna að reynast sem og yfirferð prófarka endurgjaldslaust. Breytingar sem hugsanlega þarf að gera verða heldur ekki greiddar sérstaklega.“ (28.1.1935).

Á árunum sem í hönd fóru reyndist fólki æ erfiðara að skilja og tileinka sér boðskap Gral. Sagan sýndi að langflestir kusu aðrar leiðir en þær sem bent var á í Gralsboðskapnum. En hér var ekki aðeins um stærsta hluta almennings að ræða heldur einnig ýmsa fylgismenn Gralsboðskaparins sem á þeim tíma litu á hann sem leiðarljós í lífinu.

Strax árið 1937 hafði Abd-ru-shin orð á því við nokkra nána viðmælendur sína að þróunin kallaði á endurskoðun fyrirlestranna, eins og sjá má í bréfum og yfirlýsingum þessara aðila.

Abd-ru-shin réðst í þessa endurskoðun á meðan honum var haldið föngnum í Kipsdorf. Á meðan á þeirri dvöl stóð tókst örfáum fylgismönnum Gralsboðskaparins að heimsækja hann og fjölskyldu hans þangað þrátt fyrir verulega örðugleika. Hann sagði þeim frá endurskoðun fyrirlestranna og greindi þeim frá því að hann hefði tekið boðskapinn saman í þrjá hluta. Sumir gestanna rituðu seinna minningar sínar úr þessum heimsóknum í frásögnum eða í bréfum.

Það er tæpast hægt að gera sér í hugarlund hversu mjög Abd-ru-shin hlýtur að hafa þjáðst í slíkri útlegð. Innri togstreita og álag í kjölfar erfiðra starfsskilyrða höfðu að endingu áhrif á líkamlega heilsu hans. Þegar hann dvaldi á sjúkrahúsi í nóvember 1941 gátu læknar ekki greint neina líkamlega sjúkdómsorsök og létu að lokum undan ósk sjúklingsins um að fara aftur „heim“ til Kipsdorf. Þar lauk Abd-ru-shin vist sinni hér á jörð síðla dags 6. desember 1941. Ósk hans um að halda heim stefndi að marki sem var óravíddum ofar þessari jörð.

Að Abd-ru-shin látnum voru það Maria og Irmingard Bernhardt sem fylgdu verki hans eftir. Þær urðu að þola þungbær stríðsár uns þær gátu að stríðinu loknu árið 1945 snúið aftur til Vomperberg þar sem Abd-ru-shin hafði einkum starfað.

Nokkru síðar greindu þær í dreifibréfi fylgismönnum Gralsboðskaparins frá því að Abd-ru-shin hefði endurskoðað boðskap sinn árin sem hann dvaldi í Kipsdorf.

Maria og Irmingard Bernhardt höfðu engin tök á því – sem þeim er stundum borið á brýn – að skara eld að eigin köku með endurskoðun Gralsboðskaparins. Eftir stríð hefði það verið svo miklu hægara fyrir þær báðar að endurútgefa „stóru útgáfu“ frá 1931, „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ frá 1934 og þá fyrirlestra sem út komu á „gamla“ forminu til 1937! Þær hefðu getað sparað sér mikla fyrirhöfn, leiðindi, fjandskap auk kostnaðar.

Vinna þeirra stjórnaðist eingöngu af löngun til að fara að óskum Abd-ru-shin og breiða út boðskapinn á þann hátt sem hann hafði að endingu sjálfur mælt fyrir um.

 

Ausgabe letzter Hand

 1. 1920-1926: Tímaritið „Gralsblöð“, Gralsboðskapur útgáfa 1926
 2. 1926-1931: Tímaritið „Kallið“, Gralsblöð, Gralsboðskapur útgáfa 1931
 3. 1931-1938: Viðbrögð við Gralsboðskapnum, tímaritið „Röddin“
 4. 1938-1941: Endurskoðun Gralsboðskaparins, Lokaútgáfa
 5. Samantekt
 6. Viðauki