Abd-ru-shin

Abd-ru-shin_02

Abd-ru-shin, höfundur ritverksins Í ljósi sannleikans hét Oskar Ernst Bernhardt. Hann var Þjóðverji og fæddist 18. apríl 1875 í Bischofswerda (nálægt Dresden). Nafnið Abd-ru-shin, höfundarnafn hans þegar hann ritaði fyrirlestra sína um Gralsboðskapinn, merkir efnislega Þjónn ljóssins.

Árið 1928 fluttist Oskar Ernst Bernhardt búferlum til Austurríkis þar sem hann bjó þar til þjóðernissósíalistar tóku eigur hans eignarnámi og bönnuðu verk hans Í ljósi sannleikans.
Í störfum sínum voru hendur hans bundnar og Abd-ru-shin andaðist 6. desember 1941 í Oberkipsdorf í héraðinu Erzgebirge í fylkinu Saxlandi þar sem hann neyddist til að dvelja síðustu æviárin undir eftirliti Gestapo.

Barnæska Oskar Ernst Bernhardt var glöð. Að skyldunáminu loknu hóf hann bóklegt og síðan verklegt verslunarnám sem hann lauk í Dresden.

Sem sjálfstætt starfandi verslunarmaður og síðar sem meðeigandi í stærri innflutnings- og útflutningsfyrirtækjum ferðaðist Oskar Ernst Bernhardt mikið. Lífsreynsla hans og áhrifin sem hann varð fyrir urðu þess fljótt valdandi að hann helgaði sig æ meir löngun sinni til ritstarfa á kostnað verslunarstarfa og frá 1907/08 vann hann eingöngu sem rithöfundur. Auk ferðabóka, smásagna og skáldsagna naut hann umtalsverðrar frægðar sem leikritahöfundur.

Að lokinni langri dvöl í New York (1912/13) hélt hann í kynnisferð til Englands (London). Þar var þessi Þjóðverji, þá fertugur að aldri, tekinn höndum í upphafi fyrri heimsstyrjaldar og hafður í haldi í fangabúðum Breta á Isle of Man frá 1915 til 1919. Í fjögurra ára dvöl í fangabúðum kynntist hann af eigin raun innri neyð fólks sem ekki kom auga á neina leið framar út úr óreiðu gamalla heimskerfa sem komin voru að fótum fram. Þá vaknaði með honum sú ósk að verða hér að liði með vitneskju um æðra samhengi sem ráðið gæti úrslitum.

Þannig hóf Oskar Ernst Bernhardt árið 1923 að birta fyrirlestra um veigamiklar spurningar lífsins undir nafninu Abd-ru-shin. Nafninu Abd-ru-shin var ekki eingöngu ætlað að vísa til þess hlutverks sem hann varð áskynja og lifði samkvæmt – að vera þjónn ljóssins. Það tengdi saman fyrsta jarðlíf hans, undirbúningsskeiðið á tímum Móses, og hlutverk hans sem boðbera Gralsboðskaparins. Fræðin um endurholdgun er grundvallaratrið ritverksins Í ljósi sannleikans.


Árið 1928 settist Abd-ru-shin að á Vomperberg í Tíról, nálægt Innsbruck, og lauk þar við að skrifa fyrirlestrana í þriggja binda útgáfu Gralsboðskaparins sem enn er fáanleg. Samtímis því varð til ákveðinn lífsstíll með tilkomu Gral-byggðarinnar í anda þessa ritverks. En þegar Austurríki varð þýskt árið 1938 bannaði nasistastjórnin frekari stækkun hennar. Abd-ru-shin var tekinn höndum og hann sviptur eigum sínum á Vomperberg.

Eftir sex mánaða þrúgandi fangavist í Innsbruck varð hann að fara frá Austurríki sem þá var hersetið. Að endingu fann hann sér samastað í Oberkipsdorf í héraðinu Erzgebirge í fylkinu Saxlandi. En um leið var honum meinað að fjalla opinberlega um hugðarefni sín eða að fá heimsóknir. Gestapo fylgdist sífellt með Abd-ru-shin og hafði stöðugar gætur á honum.

Árin meðan hann var í útlegð nýtti hann engu að síður til ritstarfa: hann færði Gralsboðskapinn yfir í núverandi búning. En útlegð og einangrun drógu dilk á eftir sér: Abd-ru-shin andaðist, aðeins 66 ára að aldri, 6. desember 1941 í Kipsdorf.