- 1920-1926: Tímaritið „Gralsblöð“, Gralsboðskapur útgáfa 1926
- 1926-1931: Tímaritið „Kallið“, Gralsblöð, Gralsboðskapur útgáfa 1931
- 1931-1938: Viðbrögð við Gralsboðskapnum, tímaritið „Röddin“
- 1938-1941: Endurskoðun Gralsboðskaparins, Lokaútgáfa
- Samantekt
- Viðauki
Kafli 04
Árið 1938 hófst Abd-ru-shin þegar handa við að endurskoða fyrirlestra sína, á árunum 1939 til 1941 skipaði hann heildarverki sínu niður á þann hátt sem Irmingard Bernhardt greinir frá í yfirlýsingu sinni frá 15. maí 1956.
Afrit af yfirlýsingunni fyrir héraðsdómi í Schwaz:
„Höfundurinn, herra Oskar Ernst Bernhardt, endurskoðaði sjálfur Gralsboðskapinn á árunum 1939 til 1941.
Í september 1938 hrakti Gestapo okkur – herra Oskar Ernst Bernhardt, eiginkonu hans Maria Bernhardt, bróður minn Alexander og mig – til Schlauroth hjá Görlitz. Í mars 1939 fluttumst við með samþykki Gestapo til heilsulindarbæjarins Kipsdorf í héraðinu Erzgebirge. Það ár hóf herra Oskar Ernst Bernhardt að endurskoða Gralsboðskapinn. Í lok maí 1941 var endurskoðað handrit tilbúið til prentunar.
Endurskoðunin fól í sér margvíslegar breytingar. Að hluta til var um það að ræða að leiðrétta greinarmerkjasetningu, breyta orðaröð, fella brott eða stytta heilar setningar eða málsgreinar sem höfðu að geyma endurtekningu á því sem þegar var minnst á í fyrri setningum eða málsgreinum.
Hann felldi líka brott orð, setningar og heilar síður ef hann taldi að fólk myndi þrátt fyrir allt ekki skilja þær hugsanir sem þar voru settar fram. Atburðir síðustu áranna fyrir andlátið réðu mestu um þessa skoðun hans.
Leiðréttingarnar gerði Oskar Ernst Bernhardt þannig að í eintak af Gralsboðskapnum sem hann ætlaði sérstaklega til þessa færði hann inn með blýjanti ábendingar sínar, felldi brott og skrifaði inn merki þar sem hann óskaði eftir breytingum eða viðbótum. Slíkar breytingar og viðbætur skrifaði hann síðan á sérstakt blað. Vegna þess að blýjantsathugasemdirnar máðust auðveldlega út og áttu á hættu að verða ólæsilegar vélritaði ég þær á pappírsstrimla, strokaði síðan umræddan blýjantstexta út úr breytinga-eintaki Gralsboðskaparins og límdi vélritaða strimilinn inn í staðinn. Ég límdi yfir þær blaðsíður í Gralsboðskapnum þar sem stórir hlutar voru yfirstrikaðir eða þá að ég vélritaði blaðsíðuna með breytingunum algerlega upp á nýtt og límdi síðan nýju síðuna yfir.
Vegna þess að röð fyrirlestranna breyttist þurfti stundum að taka fyrirlestur út úr röðinni og skjóta honum inn á öðrum stað.
Breytingarnar vann ég allar nákvæmlega eftir fyrirmælum höfundar Gralsboðskaparins. Hann fór yfir hverja breytingu.
Þessi aðferð gerði það að verkum að aðeins eru til örfá blöð úr handritinu með breytingum sem Oskar Ernst Bernhardt ritaði eigin hendi.“
Vomperberg, 15. maí 1956
Irmingard Bernhardt
Í I. bindi „Lokaútgáfu“ Gralsboðskaparins bætti Abd-ru-shin einkum þeim fyrirlestrum inn í fyrirlestraröðina í þeirri röð sem þeir birtust í útgáfunni 1931 sem út komu árið 1937 í tímaritinu „Röddin“, en þó ekki í sömu röð og þeir komu út í. Þetta á við um fyrirlestrana „Dýrkun“, „Stirðnun“, „Barnseðli“, „Skírlífi“, „Fyrsta skrefið“, „Björgun! Endurlausn!“ og „Táknmál Drottins“.
Fyrirlesturinn „Leyndardómur blóðsins“ úr fyrsta tölublaði birtist í III. bindi á milli kaflanna „Jarðlíkaminn“ og „Geðslagið“.
Í þessu fyrsta bindi er sömuleiðis að finna fyrirlestra úr I. bindi bókarinnar „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ og úr safni stakra fyrirlestra.
Hins vegar var nokkrum titlum breytt. Þannig kemur fyrirlesturinn „Lokaorð“ út undir heitinu „Nauðsynlegt orð“, fyrirlesturinn „Æðsti dómur“ fær yfirskriftina „Heimurinn“, og „Hrópað á foringjann“ heitir „Hrópað á hjálpræðið“ (þjóðernissósíalistar höfðu komið óorði á hugtakið „foringi“).
Annað bindi „Lokaútgáfu“ Gralsboðskaparins hefur fyrst og fremst að geyma fyrirlestra úr útgáfunni frá 1931 sem endurskoðaðir voru á þann hátt sem Irmingard Bernhardt lýsti. Fyrirlestrana „Guðssonur og mannssonur“ og „Köllun“ tók Abd-ru-shin ekki framar til birtingar og féllu því niður eins og fyrirlesturinn „Og uppfylltist“ og „Lokaorð“. Með fyrirlestrinum „Lífið“ úr viðaukanum lýkur II. bindi.
Í III. bindi er að finna þá fyrirlestra úr I. bindi ritsins „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ og úr safni stakra fyrirlestra sem Abd-ru-shin valdi til birtingar framvegis.
Hingað var einnig færður fyrirlesturinn „Leyndardómur blóðsins“ úr 1. tölublaði tímaritsins „Röddin“. Fyrirlesturinn „Sá sem ekki vill þekkja orð mitt…“ birtist undir heitinu „Nafnið“. Með eftirmálanum „Hvernig skilja ber boðskapinn“ lýkur III. bindi.
Fimm fyrirlestrar úr I. bindi „Viðbrögð við Gralsboðskapnum“ og fjórir fyrirlestrar úr safni stakra fyrirlestra voru hvorki teknir upp í I., II. né III. bindi Gralsboðskaparins. Þetta eru fyrirlestrarnir „Nauðsynlegur jöfnuður“, „Jesús og Immanúel“, „Jól“ (ekki sá sami og fyrirlesturinn „Jól“ í III. bindi „Lokaútgáfu“), „Jólahljómar berast ógnandi um himingeim“, „Ég sendi ykkur!“, „Hliðinu verður upp lokið!“, „Sárið“, „Nýár 1935“ og „Fórnin“.
- 1920-1926: Tímaritið „Gralsblöð“, Gralsboðskapur útgáfa 1926
- 1926-1931: Tímaritið „Kallið“, Gralsblöð, Gralsboðskapur útgáfa 1931
- 1931-1938: Viðbrögð við Gralsboðskapnum, tímaritið „Röddin“
- 1938-1941: Endurskoðun Gralsboðskaparins, Lokaútgáfa
- Samantekt
- Viðauki