Veröldin

Veröldin! Þegar maðurinn notar þetta orð slengir hann því oft fram án þess að gera sér nokkra mynd af því hvernig þessi heimur er í raun og veru.

En margir sem reyna að gera sér einhverja hugmynd um heiminn sjá fyrir sér í huganum ótal himintungl af ýmsum gerðum og stærðum, raðað saman í sólkerfi sem ferðast á brautum sínum um himingeiminn. Þeir vita að sífellt er hægt að koma auga á ný og fleiri himintungl, því nákvæmari
og langdrægari sem tækin verða. Meðalmaðurinn sættir sig við orðið »óendan­leiki« en þar með gerir hann sig um leið sekan um ranga mynd af veruleikanum.

Veröldin er ekki óendanleg. Hún er efniskennda sköpunarverkið, það er að segja verk skaparans. Þetta verk stendur eins og hvert annað verk við hlið skaparans og er sem slíkt endanlegt.

Svokallaðir þroskaðir menn eru oft stoltir af því að hafa komist á þá skoðun að Guð búi í öllu sköpunarverkinu, í sérhverju blómi, hverjum steini, að knýjandi máttur náttúruaflanna sé Guð, það er að segja allt hið órannsakanlega, sem aðeins fæst skynjað en ekki snert. Sístarfandi frumkraftur, eilíf orkulind sem endurnýjar sig sjálf, verulaust frumljósið. Þeir telja sig mjög langt komna á þroskabraut og þess meðvitaða að Guð, sem stefni stöðugt á hið eina takmark framþróunar til fullkomnunar, drífandi afl að baki öllu, sé alls staðar að finna og að þeir hitti hann hvarvetna fyrir.

Þetta er hins vegar aðeins rétt í ákveðnum skilningi. Í öllu sköpunarverkinu hittum við aðeins fyrir vilja hans og þar með anda hans, kraft hans. Sjálfur er hann langt fyrir ofan sköpunarverkið.

Efniskennda sköpunarverkið var strax í sköpuninni bundið óbreytanlegum lögmálum tilurðar og hruns, vegna þess að það sem við nefnum náttúrulögmál er sköpunarvilji Guðs sem stöðugt mótar og leysir upp nýjar veraldir. Þessi sköpunarvilji er sem ein heild í öllu sköpunarverkinu, sem fínkenndi og grófgerði heimurinn eru hluti af, sem eitt.

Af skilyrðislausri og óhagganlegri samtengingu frumlögmálanna, það er frumviljans, leiðir, að í smæstu ferlum grófgerðrar jarðarinnar hlýtur stöðugt það sama að fara fram og í öllum öðrum atburðum, það er að segja það sama og í stórfenglegustu viðburðum alls sköpunarverksins, og eins og í tilurðinni sjálfri.

Skýrt form frumviljans er látlaust og einfalt. Það er auðsætt, hafi maður einu sinni komið auga á það, í öllu. Það sem gerir svo margt fyrirbæri flókið og torskilið liggur eingöngu í þeim fléttum sem til verða við alls kyns króka og hjáleiðir vegna margvíslegra langana mannsins.

Verk Guðs, veröldin, sem sköpunarverk, er þannig háð óbreytanlegum og fullkomnum lögmálum Guðs, sprottin af þeim, og þar af leiðandi takmarkað.

Listamaðurinn er til dæmis líka í verki sínu, gengur upp í því en er þó sjálfur til hliðar við það. Verkið sjálft er takmarkað og forgengilegt, færni listamannsins er það ekki þess vegna. Listamaðurinn, það er að segja skapari verksins, getur fargað verki sínu sem vilji hans býr í, án þess að það snerti hann sjálfan. Hann verður eftir sem áður alltaf listamaðurinn.

Við skynjum og finnum listamanninn í verki sínu og við kynnumst honum án þess að þurfa að hafa séð hann í eigin persónu. Við höfum verk hans, vilji hans er í þeim og verkar á okkur, í þeim kemur hann fram fyrir okkur en getur þó verið víðs fjarri.

Listamaðurinn í einveru sinni og verk hans endurspegla á vissan hátt samband sköpunarverksins og skaparans.

Eilíf og án enda, það er að segja endalaus er aðeins hringrás sköpunarverksins í samfelldri tilurð, eyðingu og endurnýjun.

Í þessu ferli er að finna allar opinberanir og öll fyrirheit. Þar verður í fyllingu tímans einnig að finna »æðsta dómstól«!

Æðsti, það er að segja hinsti dómstóll rennur upp einu sinni
á hverju himintungli, en ekki á sama tíma í öllu sköpunarverkinu.

Það er nauðsynlegt ferli í viðkomandi hluta sköpunarverksins sem nær þeim punkti hringrásar sinnar þar sem upplausn hans hlýtur að hefjast svo hann geti síðan tekið að myndast á nýjan leik.

Með þessari eilífu hringrás er ekki átt við hringferð jarða og annarra stjarna kringum sólirnar, heldur stóru, altæku hringrásina sem öll sólkerfi hljóta að fylgja, á meðan þau lúta sínum eigin sértæku hreyfingum.

Stundin, þegar upplausn sérhvers himintungls skal hefjast, er fyrirfram nákvæmlega ákveðin, enn á ný vegna rökrétts samhengis náttúrulegra lögmála. Nákvæmlega skilgreindur staður þar sem niðurbrotið hlýtur að eiga sér stað, án tillits til ástands viðkomandi himintungls og íbúa þess.

Óstöðvandi færir hringrásin sérhvert himintungl nær þessari stund, stund niðurbrotsins verður ekki umflúin, en eins og allt annað í sköpunarverkinu merkir það aðeins umbreytingu, tækifæri til aukins þroska. Þá rennur upp stundin »annað hvort – eða« fyrir hverjum manni. Annað hvort verður hann hafinn í átt að ljósinu, leiti hann í átt til hins andlega, eða þá að hann verður hlekkjaður við efnisheiminn, sem er honum svo hjartfólginn, ef sannfæring hans býður honum að aðeins efnisheimurinn sé eftirsóknarverður.

Ef svo er getur hann í rökréttu framhaldi af eigin vilja ekki lyfst upp frá efnisheiminum og dregst með honum síðasta spölinn í átt til upplausnar. Það væri þá andlegur dauði! Jafngildir því að vera þurrkaður út úr bók lífsins.

Þetta í sjálfu sér eðlilega ferli er líka nefnt eilíf fordæming vegna þess að sá sem dregst á þennan hátt með inn í niðurbrotið »hættir að vera til sem einstaklingur«. Það skelfilegasta sem hent getur nokkurn mann. Hann verður ekki annað en »brott kastaður steinn« sem ekki nýtist við andlega uppbyggingu og hlýtur því að verða mulinn niður.

Þessi rökrétta aðgreining andans frá efninu gerist vegna eðlilegrar framvindu og lögmála, og er hinn svonefndi »æðsti dómstóll« sem tengist miklum kollsteypum og umbreytingum.

Að þessi upplausn gerist ekki á einum degi er trúlega hverjum manni auðskilið því í veröldinni eru þúsund ár sem einn dagur.

En við erum við upphaf þessa tímabils. Jörðin nálgast nú þann punkt þar sem hún víkur af fyrri braut sinni, sem hlýtur einnig að verða mjög greinilegt í grófgerða heiminum. Þá verða skilin meðal mannanna enn ljósari, sem undirbúin voru nýverið en hafa aðeins komið fram sem »skoðanir og sannfæringar«.

Sérhver stund hér á jörð er því dýrmæt, dýrmætari en nokkru sinni fyrr. Hver sá sem leitar af einlægni og vill læra, skal af öllu afli rífa sig upp úr lítilmótlegum hugsunum sem geta ekki annað en hlekkjað hann við það sem jarðneskt er. Hann á að öðrum kosti á hættu að loða við efnisheiminn og sogast með honum í átt til algerrar upplausnar.

Þeir sem sækjast eftir ljósinu losna smám saman frá efnisheiminum og verða að endingu hafnir upp til heimkynna alls þess sem andlegt er.

Þá eru skilin milli ljóss og myrkurs endanlega um garð gengin og dóminum fullnægt.

»Veröldin«, það er að segja gjörvallt sköpunarverkið, ferst ekki við þetta, heldur verða himintunglin þá fyrst dregin inn í upplausnarferlið þegar hringferðin hefur fært þau á þann punkt þar sem upplausnin og þar með fyrri skil skuli hefjast.

Framkvæmdin sjálf gerist eðlilega fyrir tilstilli guðlegu lögmálanna sem fólust í sköpunarverkinu frá frumbyrjun þess og leiddu til sköpunarverksins og fela í sér í dag og framvegis, óþrjótandi, vilja skaparans. Í eilífri hringrás er hér samfleytt á ferð sköpun, sáning, þroski, uppskera og eyðing, til þess að taka á sig í umbreytingu tengslanna ný og fersk form, sem halda á vit næstu hringrásar.

Þessa hringrás sköpunarverksins getur maður séð fyrir sér sem ógnarstóra trekt eða ógnarstóran helli þaðan sem spretta í samfelldum flaumi frumfræ sem stefna á nýjar tengingar og þróun í hringhreyfingu. Nákvæmlega á þann hátt sem vísindin þekkja og hafa réttilega lýst.

Þéttar þokur myndast við núning og árekstra, og af þeim verða ný
himin­tungl sem raðast saman eftir óhagganlegum rökréttum lögmálum í sólkerfi og, er þau snúast eigin innri snúningi, lúta altækum hringferli, sem er eilífur.

Á sama hátt og í þeim atburðum sem jarðneska auganu eru sýnilegir, leiðir af einu fræi þróun, mótun, þroska og uppskeru eða eyðingu, sem hefur í för með sér umbreytingu, niðurbrot svo að til nýmyndunar geti komið hjá plöntum, dýrum og mönnum, eins er því varið í stóru atburðum veraldarinnar. Stóru, sýnilegu himintungl grófgerða heimsins, sem umlukin eru enn stærri fínkenndum hjúp, sem er því ósýnilegur mannlegu auga, lúta sömu lögmálum á eilífri umferð sinni, því þar eru sömu lögmál að verki.

Tilvist frumfræsins getur jafnvel öfgafyllsti efahyggjumaður ekki afneitað, en samt er það ósýnilegt jarðnesku auga vegna þess að það er annars efnis, »ættað að handan«. Við getum sem hægast nefnt það fínkennds efnis.

Það er heldur ekki erfitt að skilja að sú veröld sem myndaðist fyrst út frá því er vitaskuld jafn fínkennds efnis og ósýnileg jarðneskum augum. Það er ekki fyrr en með grófgerðustu úrkomunni sem á eftir fylgdi, háð fínkennda efnisheiminum, sem hægt var að móta grófgerða efnisheiminn, með grófgerðum líkömum sínum, og allt þetta er hægt að horfa á verða til, úr fyrstu vísum, með jarðneskum augum og öllum hjálpartækjum hins grófgerða heims.

Þessu er ekki öðru vísu varið með hjúpinn kringum hinn sanna mann í andlegu eðli sínu, sem ég fjalla um síðar. Á vegferð sinni um hinar ýmsu veraldir verða flíkur hans, skikkja, skel, líkami eða verkfæri, einu gildir hvað við kjósum að nefna hjúp hans, ávallt að vera af sama efni og umhverfið sem hann stígur inn í hverju sinni, hjúpurinn sem hann ætlar að nýta sem skjól og hjálpartæki, kjósi hann að eiga færi á að eiga þar beint hlut að máli.

Og þar eð grófgerða veröldin er háð fínkenndu veröldinni, leiðir það aftur til þess að allt sem gerist í grófgerðu veröldinni er endurspeglun fínkenndu veraldarinnar.

Þessi stóri fínkenndi hjúpur varð til úr frumfræinu, fylgir eilífu hringferlunum og sogast að endingu einnig inn um bakhlið ofurtrektarinnar sem áður var getið, þar sem niðurbrotið fer fram, til þess eins að verða sent á ný út í enn aðra hringrás.

Líkt og í starfsemi hjartans og blóðflæðisins er trektin eins og hjartað í efniskenndri sköpuninni. Niðurbrotsferlið gildir að sama skapi um allt sköpunarverkið, einnig fínkennda hlutann, þar eð allt efniskennt leysist aftur upp í frumfræ, til þess að geta nýmyndast. Hvergi örlar þar á geðþótta heldur lýtur þar allt sjálfsagðri rökfestu frumlögmálanna sem ekki heimila nein frávik.

Á tilteknum punkti í stóru hringferðinni kemur þar af leiðandi að þeirri stundu í lífi alls þess sem skapað hefur verið, grófkennds eða fínkennds efnis, þar sem niðurbrotsferli þess skapaða er undirbúið og hefst af sjálfsdáðum.

Þessi fínkennda veröld er síðan tímabundinn dvalarstaður þeirra sem hverfa frá jörðu, svonefndir handanheimar. Þeir eru í nánum tengslum við grófgerðu veröldina, sem tilheyra þeim, eru með henni ein eining. Þegar brottfararstundin rennur upp stígur maðurinn ásamt fínkenndum líkama sínum, sem hann ber samtímis grófgerða líkamanum, inn í fínkennt umhverfi sömu gerðar og grófgerða veröldin, en skilur þó grófgerða líkamann þar eftir.

Þessi fínkennda veröld hins vegar, handanheimar, sem eru hluti sköpunarverksins, lýtur sömu lögmálum um stöðuga þróun og niðurbrot. Þegar niðurbrotið hefst byrjar sömu leiðis á ný, og á afskaplega eðlilegan hátt, aðgreining þess sem andlegt er og þess sem efnisheims er. Allt eftir andlegu ástandi mannsins í grófgerða heiminum, sem og þeim fínkennda, verður maður andans, hið raunverulega »ég«, að færast annað hvort uppávið eða vera áfram hlekkjað við efnisheiminn.

Einlæg þrá eftir sannleika og ljósi gerir, með þessari breytingu sinni, hvern mann andlega hreinni og um leið bjartari, þannig að eftir þetta losnar hann, náttúrulögmálum samkvæmt, sífellt meir frá þéttum efnisheiminum og hlýtur því að færast sífellt upp, í samræmi við hreinleika sinn og léttleika.

Sá, hins vegar, sem aðeins aðhyllist efnisheiminn, fylgir sem fyrr þeirri sannfæringu sinni um efnisheiminn, er hlekkjaður við hann og því er ekki unnt að hnika honum upp á æðra stig. Af sjálfviljugri ákvörðun hvers og eins leiðir þess vegna aðgreining þeirra sem leita í átt til ljóssins og þeirra sem tengjast myrkrinu, í fullu samræmi við náttúruleg lögmál andlegrar þyngdar.

Þar með er ljóst að þroskaferli þeirra
sem kallaðir eru brott frá jörðu er líka á tilteknum tímapunkti endanleg takmörk sett í hreinsunarferli svonefndra handanheima. Lokaákvörðun! Mannfólkið í báðum heimum er annaðhvort svo þroskað að það má færa yfir í svið ljóssins, eða það dvelur að eigin ósk bundið á lægra eðlisstigi og verður að endingu steypt niður í »eilífa glötun«, það er að segja, það verður um leið og efnisheimurinn, sem það losnar ekki undan, ofurselt niðurbrotinu, upplifir niðurbrotið sjálft á sársaukafullan hátt og hættir um leið að vera til sem einstaklingar.

Það á eftir að fjúka á brott í vindinum, orðið að dufti og strikað út úr bók lífsins!

Þessi svo kallaði »æðsti dómstóll«, það er að segja síðasti dómstóllinn, er þar með einnig athöfn sem knúin er áfram á náttúrulegan hátt af þeim lögmálum sem bera uppi guðdóminn; á þann hátt að aðrar aðferðir koma ekki til álita. Maðurinn uppsker jafnvel hvað þetta áhrærir aðeins þau aldin sem hann kaus sér sjálfur, það er að segja, það sem hann kom til leiðar gegnum sannfæringu sína.

Sú vitneskja, að allt sem gerist í sköpunarverkinu sé í sjálfu sér í rökréttu samhengi, að leiðarljós örlaga mannsins skuli ávallt koma frá mönnunum sjálfum, gegnum óskir þeirra og langanir, að skaparinn skuli ekki grípa inn í atburðarásina sem áhorfandi, með umbun eða refsingu, dregur ekki úr mikilfengleik skaparans, heldur gefur það okkur ástæðu til að hugsa okkur hann sem enn æðri veru.

Stærð hans felst í fullkomnun verks hans og hún knýr okkur til lotningarfulls augnaráðs, því stærsta ást og réttlæti sem ekkert fær afvegaleitt hlýtur að búa jafnt í mikilfenglegustu sem smásæjustu fyrirbærunum.

Maðurinn er líka settur stór inn í sköpunarverkið, sem drottnari yfir eigin örlögum. Hann er þess megnugur, með hjálp viljans, að stíga upp úr sköpunarverkinu og eiga þannig þátt í æðri þroska þess eða draga það niður og flækjast svo kyrfilega í því að hann losnar ekki aftur og stefnir með því í átt til upplausnar, hvort heldur sem er í grófgerðu eða fíngerðu veröldinni.

Slítið ykkur því laus úr öllum viðjum lítilmótlegra tilfinninga; það er löngu tímabært! Sú stund nálgast þegar fresturinn rennur út! Tendrið í ykkur þrána eftir hinu hreina, sanna, göfuga! –

Hátt yfir eilífri hringrás sköpunarverksins svífur eins og kóróna í miðjunni »blá eyja«, lendur hinna sælu, hreinsaðra anda, sem hvílt geta í sviðum ljóssins! Þessi eyja er aðgreind frá veröldinni. Hún tekur því ekki þátt í hringferðinni, heldur er hún, þrátt fyrir fjarlægð sína ofar hringferli sköpunarverksins, fótfesta og miðdepill þeirra andlegu krafta sem út er geislað. Þetta er eyjan þar sem er að finna hina margrómuðu borg með gulli lögðum götum. Hér er ekkert lengur breytingum undirorpið. Hér þarf ekki að óttast neinn »æðsta dómstól«. Þeir sem þar geta dvalið eru komnir til »heimkynna« sinna.

Og sem það síðasta á þessari bláu eyju, það hæsta, stendur, óaðgengilegur þeim sem ekki eru útvaldir, … kastali Grals, sem svo margoft kemur fyrir í ljóðum!

Sögnum vafinn, langþráð takmark ótal manna, stendur hann þar í ljósi stærstu dýrðar og varðveitir hinn heilaga bikar sannrar ástar hins almáttuga, Gral!

Verðir þar eru hreinustu andarnir. Þeir eru flytjendur guðlegrar ástar í sinni hreinustu mynd, sem er allt öðru vísi á að líta en mennirnir á jörðu gera sér í hugarlund, þó svo að þeir upplifi hana daglega, hverja stund.

Fregnir af kastalanum bárust gegnum opinberanir í mörgum þrepum alla leið ofan frá bláu eyjunni gegnum fíngerða efnisheiminn og dýpstu hugljómun nokkurra skálda að lokum niður til mannanna á grófgerðri jörðinni. Skilað þrep af þrepi niðurávið varð sannleikurinn að þola, gegn vilja sínum, margvíslegar afbakanir þannig að síðasta ásýnd hans gat aðeins orðið svipur hjá sjón sem af hlutust margs konar villur.

Berist nú einhvers staðar að úr sköpunarverkinu í sárri neyð sorg og grátbænir upp til skaparans, verður þjónn bikarsins sendur af stað og kemur til hjálpar í andlegri neyð, sem flytjandi þessarar ástar. Það sem aðeins er á sveimi í sköpunarverkinu sem munnmæli og goðsögn stígur þar með lifandi inn í sköpunarverkið!

En slíkar sendingar eru sjaldgæfar. Þeim fylgja í hvert skipti afgerandi breytingar, miklar byltingar. Þessir sendiboðar færa ljós og sannleika þeim sem villuráfandi eru, frið þeim sem örvænta, rétta með boðskap sínum hjálparhönd öllum leitendum til þess að veita þeim nýjan kjark og kraft og leiða þá gegnum öll myrkur inn í ljósið.

Þeir koma aðeins til þeirra sem þrá ljóssins hjálp, ekki til þeirra sem fara með spotti og sjálfsréttlætingu.