Vaknið!

Vaknið þér, menn, af blýþungum svefni! Sjáið ósamboðna byrðina sem þið berið að ósekju, sem þjakar án afláts milljónir manna. Varpið henni á brott! Er hún ómaksins verð? Ekki eitt einasta andartak!

Hvað hefur hún að geyma? Hismið tómt, sem andvari sannleikans feykir á brott. Þið hafið sólundað tíma og kröftum til einskis. Sprengið því af ykkur hlekkina sem ykkur fjötra, leysið ykkur loksins úr ánauð!

Sá maður verður að eilífu þræll, sem bundinn er andlegu helsi, og jafnvel þótt konungur væri.

Þið fjötrið ykkur með öllu því sem þið hyggist læra. Gætið að: Með lærdómnum dragið þið yfir ykkur þröngan framandi stakk, dansið þið sjálfviljug eftir hljóðpípu annarra, tileinkið ykkur aðeins það sem aðrir upplifðu í sér og í sína þágu.

Hafið hugfast: Það gildir ekki það sama um alla! Það sem öðrum gagnast getur skaðað hinn. Hver og einn verður að feta sinn eigin veg í átt til fullkomnunar. Og til þess nýtir hann þá kosti sem hann er gæddur. Honum ber að taka mið af þeim, byggja á þeim! Geri hann það ekki verður hann gestur í sjálfum sér og á alltaf eftir að standa til hliðar við það sem honum lærist og aldrei nær að komast til lífsins innra með honum. Hann á því aldrei eftir að njóta nokkurs ávinnings. Hann lifir plöntulífi, allar framfarir eru útilokaðar.

Leggið við hlustir, þið sem í einlægni leitið ljóss og sannleika:

Leiðina til ljóssins verður hver og einn að skynja með sjálfum sér, hann verður sjálfur að verða hennar áskynja, vilji hann feta þessa leið af öryggi. Maðurinn tileinkar sér einungis að fullu það sem hann upplifir með sjálfum sér, þær breytingar sem hann finnur fyrir.

Þrautir og gleði knýja stöðugt dyra til þess að örva hugann, hvetja hann og vekja til dáða. Svo sekúndum skiptir er maðurinn þá oft leystur frá merkingarlausu hversdagsþrasi og hann skynjar ómeðvitað jafnt í sársauka sem í sælu tengingu við andann sem streymir í gegnum allt það sem lífs er.

Og allt er vissulega líf, ekkert er dautt! Vel sé þeim sem nær að grípa og varðveita slík vensl eitt andartak, nær til hærri hæða fyrir tilstilli þeirra. Hann má ekki festast í gömlu fari, heldur skal hver og einn þroskast á eigin forsendum, af eigin innri hvötum.

Hirðið ekki um þá sem fara með háð og spé, sem ekki þekkja enn andans svið. Sem ölvaðir, sjúkir standa þeir andspænis sköpunarverkinu mikla, sem hefur svo margt að bjóða. Sem sjónlausir, sem fálma sig gegnum jarðvistina og sjá ekki öll dásemdarverkin í kringum sig!

Þeir vaða í villu, þeir sofa; því hvernig getur nokkur maður til dæmis fullyrt að aðeins það eitt sé til, sem hann sér? Að ekkert líf sé að finna þar sem augu hans verða einskis vör? Að hann hætti sjálfur að vera til, eingöngu vegna þess að líkaminn dó, aðeins vegna þess að augu hans blinduðust hafi hann ekki getað látið sannfærast um hið gagnstæða? Er honum ekki nú þegar ljóst, vegna margháttaðrar reynslu sinnar, hversu takmarkað skynfæri augun eru? Veit hann ekki enn að þau tengjast hæfileikum heilans, sem háður er tíma og rúmi? Að hann getur ekki af þessum sökum skynjað með augum sínum allt það sem hefur sig yfir tíma og rúm? Gerði sér enginn þeirra sem fóru með háði og spotti grein fyrir þessari röksemdafærslu dómgreindarinnar? En andlegt líf, nefnum það þarheima, er aðeins tilverustig sem er handan jarðneskrar skiptingar í rúmi og tíma, og verður þar af leiðandi aðeins skilið á samskonar hátt.

Þó sjá augu okkar ekki einu sinni það sem hluta má niður í tíma og rúm. Hér nægir að leiða hugann að vatnsdropanum sem virðist hverju auga fullkomlega tær, en sem reynist, við nánari skoðun í gegnum vandað sjóngler, hafa að geyma milljónir lífvera sem berjast þar vægðarlaust fyrir tilvist sinni á kostnað hinna. Eru ekki oft örverur í vatni, í lofti, sem eru þess umkomnar að spilla mannslíkamanum, örverur sem augað ekki greinir? En hárbeitt tækin gera þær sýnilegar.

Hver þorir auk þess að halda því fram að þið sjáið ekkert nýtt, áður óþekkt, þegar þið skerpið þessi áhöld enn frekar? Skerpið þau þúsundfalt, milljónfalt, skoðunin tekur samt engan enda, heldur munu nýir heimar
ljúk­ast upp fyrir ykkur, heimar sem þið gátuð hvorki séð áður né fundið fyrir, en voru þarna þó.

Rökhugsun leiðir til sömu niðurstöðu varðandi samanlagða reynslu vísindanna til dagsins í dag. Hún opnar sýn á stöðuga framþróun en aldrei á einhver endalok.

Hvað býr svo fyrir handan? Margan hefur orðið glapið. Í þarheimum býr einfaldlega allt það sem ekki verður skynjað með jarðneskum hjálpartækjum. Jarðnesk hjálpartæki eru augu, heilinn og allir aðrir líkamshlutar og þau tól sem gagnast þessum líkamshlutum til enn skýrari starfa og frekari framdráttar.

Það mætti því segja sem svo: Í þarheimum býr allt það sem er handan þess sem líkamsaugu okkur skynja. En skil milli þess sem er hér og þess sem er fyrir handan fyrirfinnast ekki! Og heldur engin gjá! Allt er þetta ein heild, eins og allt sköpunarverkið. Einn kraftur streymir um það sem er hérna megin og fyrir handan, allt lifir og starfar fyrir tilstilli þessa eina lífsflæðis og tengist saman órjúfanlega vegna þess. Þar af leiðandi skiljum við það sem á eftir fer:

Ef einhver hluti þess veikist hlýtur áhrifanna að gæta í hinum hlutanum, líkt og við á um líkama. Sjúk efni hins hlutans flæða þá yfir til þess sem sýktur er fyrir tilstilli aðdráttarkrafta sömu gerðar og auka þannig enn á sjúkleikann. Gerist þessi veikindi hins vegar ólæknandi, leiðir óhjákvæmilega af því þá nauðsyn að hafna sýkta hlutanum af miklum mætti, eigi heildin ekki þjást áfram.

Sjáið ykkur því um hönd. Það eru ekki til neinir hérheimar og þarheimar, heldur aðeins ein allsherjar tilvist! Hugtakið skil skóp maðurinn eingöngu vegna þess að hann er ekki fær um að sjá allt og telur sig vera miðpunkt og aðalatriðið í sýnilegu umhverfi sínu. En áhrifa þess gætir út fyrir það. Því með þessari ranghugmynd um skil þrengir hann aðeins að sér, af miklu afli, kemur í veg fyrir að hann þroskist og hleypir að taumlausum hugarburði sem færir honum skelfilegar hugmyndir.

Kemur þá á óvart ef afleiðingin er aðeins trúlaust bros á vörum margra, hjá enn öðrum sjúkleg tilbeiðsla sem hneppir þá í þrældóm eða leiðir til ofstækis? Hverjum kemur þá á óvart að horfa upp á ótta, hræðslu og skelfingu, sem alið er á hjá mörgum?

Burt með allt! Hvers vegna þessar þjáningar? Rífið niður þetta skilrúm sem ranghugmynd mannsins reyndi að reisa en var þó aldrei til! Ranghugmyndir ykkar til þessa reynast ykkur einnig ótraustur grunnur undir endalausar en gagnslausar tilraunir til að byggja upp sanna trú, með öðrum orðum innri sannfæringu. Við það steytið þið á skerjum og hljótið að verða reikul í spori, full efasemda, eða neyðist til að rífa bygginguna niður eigin hendi, jafnvel til þess eins að gefast upp að lokum, hikandi og gröm.

Þið ein berið allt tjónið, því þið uppskerið enga framför heldur kyrrstöðu eða afturför. Þannig lengist vegurinn sem þið
verðið þó einhvern tíma að ganga.

Þegar þið loksins náið að skynja sköpunarverkið sem eina heild, sem það er, og dragið engin skil milli hérheima og þarheima, eruð þið á beinu brautinni, hið eiginlega takmark færist nær og framfarirnar veita ykkur gleði, veita fullnægingu. Þá skynjið þið og skiljið mun betur lifandi og hlýjar víxlverkanirnar sem fara sem æðaslög gegnum heildina, eininguna, því öll iðja er þrungin eina og sama kraftinum. Ljós sannleikans birtist ykkur þannig!

Þið munuð brátt verða þess áskynja að hjá mörgum eru það aðeins
þægindi og værukærð sem eru undirrót háðsglósa, aðeins vegna þess að
það myndi kosta fyrirhöfn að kollvarpa því sem áður var lært og hugsað, og reisa nýtt. Hjá enn öðrum raskar það lífsmynstri vanans, verður þeim þannig óþægilegt.

Hirðið ekki um þau, deilið ekki, en bjóðið hjálpfús vitneskju ykkar þeim sem ekki láta forgengilegar nautnir nægja sér, sem sækjast eftir meiru í jarðlífinu en því einu að fylla líkama sinn líkt og dýrin. Miðlið þeim af þekkingunni sem ykkur hlotnast, grafið ekki fjársjóð ykkar í jörðu; því með gjöfum auðgast og styrkist á sama hátt viska ykkar.

Í alheiminum ríkir eilíft lögmál: Það er aðeins hægt að þiggja með gjöfum, þegar um er að ræða varanleg verðmæti! Það ristir svo djúpt, streymir um allt sköpunarverkið líkt og væri það heilög hinstu skilaboð skapara þess.

Að gefa, hjálpa af óeigingirni þar sem hjálpar er þörf og hafa skilning á þjáningum náungans og veikleikum hans, það er að þiggja, vegna þess að í því liggur hinn látlausi, sanni vegur til hins æðsta!

Og að vilja þetta af einlægni færir ykkur samstundis hjálp og þrótt! Einlæg og djúpstæð þrá eftir því góða, og þá er eins og brugðið sé sverði og hinum megin frá, þeim megin frá sem enn er hulið sjónum ykkar, er ristur í sundur hindrunarveggurinn sem hugmyndir ykkar sjálfra höfðu reist, því þið eruð vissulega eitt með því sem fyrir handan er, sem þið óttist, afneitið eða þráið; eruð bundin því náið og órjúfanlega.

Reynið þetta, því hugsanir ykkar eru þeir sendiboðar sem þið sendið út og snúa aftur hlaðnir því sem þið hugsið, hvort sem það er gott eða illt. Það gerist! Gætið að því að hugsanir ykkar eru hlutir sem taka á sig huglæga ásýnd, verða oft að myndum sem lifa lengur en jarðneskur líkami ykkar, og þá verður ykkur margt ljóst.

Þannig er til komin setningin sem segir svo réttilega: »Því að verk þeirra fylgja þeim!« Hugsanasmíðar eru verk sem þið munuð hitta fyrir síðar meir! Sem mynda í kringum ykkur bjarta eða dimma hringi sem þið þurfið að stíga í gegnum til þess að komast inn í heim andans. Þar dugar engin vörn og engin aðgerð, því ákvörðunin liggur hjá ykkur. Þið verðið því sjálf að stíga fyrsta skrefið til allra hluta. Það er ekki erfitt og felst aðeins í ásetningnum, sem birtist okkur í hugsunum. Þannig berið þið innra með ykkur sjálfum himnaríki jafnt sem hel.

Ákvörðunin liggur hjá ykkur, en þið verðið síðan að una afleiðingum hugsana ykkar, ásetningsins, undanbragðalaust! Þið kallið sjálf yfir ykkur afleiðingarnar, þess vegna kalla ég til ykkar:

»Haldið hreinni uppsprettu hugsana ykkar, á þann hátt stofnið þið til friðar og eruð hamingjusöm!«

Gleymið því ekki að sérhver hugsun sem af ykkur sprettur og frá ykkur stafar laðar á vegferð sinni að sér allt sem henni líkist, eða laðast að sínum líkum, eflist þannig og styrkist enn frekar og nær að lokum áfangastað, huga, sem gleymir sér, þó ekki væri nema eitt andartak, opnast við það og tekur á móti þessum hugsunum, hleypir þeim að og leyfir þeim að starfa.

Íhugið aðeins hvaða ábyrgð hvílir á ykkur ef hugmyndin breytist í athöfn einhvers sem við henni tók og leyfði henni að starfa! Það reynir strax á þessa ábyrgð við það eitt að sérhver hugsun tengist ykkur stöðugt, líkt og fyrir tilstilli órjúfanlegs þráðar, snýr síðan aftur af öllu því afli sem henni áskotnaðist á leiðinni og íþyngir ykkur síðan eða gleður, allt eftir því hvernig til hennar var stofnað.

Þetta er staða ykkar í hugmyndaheimi og með þeim hætti sem þið hugsið veitið þið þeim hugmyndum rými sem svipar til ykkar eigin hugmynda. Því skuluð þið ekki sólunda mætti hugsunarinnar heldur snúið honum upp í vörn og beitta hugsun sem flýgur líkt og spjót og hittir alla fyrir. Búið þannig til úr hugsunum ykkar hið heilaga spjót sem berst fyrir því góða, græðir sár og er sköpunarverkinu til framdráttar!

Beinið því huganum inn á brautir gjörða og framfara! Til að svo megi verða þurfið þið að skekja marga súluna sem ber uppi aldagömul viðhorf. Oft er um að ræða hugtak, sem, ranglega skilið, girðir fyrir réttu leiðina. Það þarf að hverfa aftur til upprunans sem haldið var af stað frá. Einn ljósgeisli nægir til að steypa allri byggingunni um koll sem hugtakið hafði reist með ærinni fyrirhöfn áratugum saman, og að skömmu eða löngu lömunarskeiði liðnu hefst það aftur handa! Það er nauðbeygt til þess því í alheimnum er ekki til nein stöðnun. Tökum sem dæmi hugtakið tími.

Tíminn líður! Tímarnir breytast! Þetta heyrum við fólk segja hvarvetna, og óhjákvæmilega birtist þá í huganum mynd: Við horfum á síbreytilega tíma líða hjá!

Þessi mynd kemst upp í vana og myndar auk þess hjá mörgum grundvöll sem þeir síðan byggja á, miða allar athuganir sínar og heilabrot við. En það líður ekki á löngu uns þeir rekast á hindranir sem eru í mótsögn hver við aðra. Þótt allt sé af vilja gert ganga hlutirnir ekki upp. Þeir ráfa í villu og það myndast gloppur sem ekki er nokkur leið að fylla upp í, sama hvernig reynt er.

Þá hefur margur á orði að á slíkum stöðum þurfi að kalla trúna til hjálpar, þegar rökhugsun kemur ekki að neinum notum. En það er rangt! Maðurinn á ekki að trúa á hluti sem hann fær ekki skilið! Hann verður að reyna að skilja þá, því að öðrum kosti lýkur hann upp öllum gáttum fyrir rangfærslum, og rangfærslur hafa alltaf rýrt gildi sannleikans.

Að trúa án þess að skilja er aðeins værukærð, hugsanaleti! Það skilar huganum ekkert áleiðis heldur dregur hann niður. Hefjum því upp augun, okkur ber að sannreyna, rannsaka. Knýjandi þörfin býr ekki innra með okkur að ástæðulausu.

Tíminn! Líður hann í raun og veru? Hvers vegna hnjótum við um hindranir þegar ætlunin er að hugsa þessa grundvallar setningu lengra? Þetta er afar einfalt, vegna þess að grundvallar setningin er röng; því tíminn stendur kyrr! Það erum við sem geysumst á móti honum! Við æðum inn í tímann, sem er eilífur, og leitum þar sannleikans.

Tíminn er kyrr. Hann er sá sami, í dag, í gær og eftir þúsund ár! Aðeins ásýnd hans breytist. Við dýfum okkur í tímann til að sækja þaðan myndir, til að auðga þekkingu okkar úr safni tímans! Því hann glataði engu, hann varðveitir allt. Hann hefur ekki breyst, því hann er eilífur.

Eins er um þig, ó maður, einnig þú ert sá sami, hvort heldur ungur að sjá eða aldinn! Þú verður sá sem þú ert! Hefurðu ekki líka fundið það sjálfur? Finnurðu ekki greinilega mun á ásýndinni og þínu innra »ég«? Muninn á líkamanum, sem er breytingum undirorpinn, og þér, andanum, sem er eilífur?

Þið leitið sannleikans! Hvað er sannleikur? Það sem þið í dag upplifið sem sannleika birtist ykkur á morgun sem blekking, og í blekkingunni greinið þið svo síðar sannleikskorn! Því opinberanirnar breyta líka ásýnd sinni. Þessu er þannig farið um ykkur, í stöðugri leit, en hverfulleikinn færir ykkur þroska!

Sannleikurinn hins vegar verður sá sami, hann breytist ekki, því hann er eilífur! Og þar eð hann er eilífur verður hann aldrei skilinn hreinn og sannur með jarðneskum skilningarvitum, sem aðeins greina mun á ásýndum.

Gerist því andleg! Laus frá öllum jarðneskum hugsunum, og þið hafið höndlað sannleikann, verðið í sannleikanum, sem hvelfist yfir ykkur, sem úthellir ljósi sínu yfir ykkur, baðar ykkur ljósi sínu, því sannleikurinn umlykur ykkur að fullu. Þið syndið í honum um leið og þið gerist andleg.

Þá þurfið þið ekki lengur að tileinka ykkur vísindi með erfiðismunum, þurfið ekki að óttast blekkingar heldur hafið á reiðum höndum svör sannleikans við sérhverri spurningu, og það sem meira er, þið hafið ekki frekari spurningar, því þið vitið allt, án umhugsunar, hafið fulla yfirsýn, því andi ykkar lifir í hreinu ljósi, í sannleikanum.

Gerist því frjáls í andanum! Sprengið alla fjötra sem halda aftur af ykkur! Og takið fagnandi sérhverri þraut sem leysa þarf því þær vísa ykkur veginn til frelsis og máttar! Lítið á þær sem gjafir ykkur til heilla og þið munið leikandi sigrast á þeim.

Annað
hvort eru þær settar upp gagngert til þess að þið lærið af þeim og þroskist, og aukið þannig við færni ykkar til frekari framgangs, eða þá að þetta eru afleiðingar fyrri misgjörða sem þið getið þar með bætt fyrir og leyst ykkur undan. Í báðum tilvikum verða þær ykkur til framdráttar. Haldið því ótrauð áfram, það er ykkur til heilla!

Það er flónska að tala í þessu sambandi um að verða fyrir barðinu á örlögunum eða prófraunum. Framför felst í sérhverri baráttu og sérhverri raun. Þannig gefst manninum færi á að bæta fyrir fyrri misgjörðir, því undan þeirri yfirbót verður ekki vikist vegna þess að hringrás eilífra lögmála alheimsins þar að lútandi er óhagganleg, hringrás lögmála sem birta okkur sköpunarvilja föðurins, föðurins sem veitir okkur þar með fyrirgefningu og eyðir öllu myrku.

Jafnvel minnsta frávik hlyti óhjákvæmilega að leiða til hruns alls heimsins, svo skýrt og viturlega er öllu fyrir komið.

En sá sem þarf að gjalda fyrir mjög margar fyrri misgjörðir, hlýtur hann ekki að óa við, hlýtur hann ekki að hrylla við því að endurgjalda skuldir sínar?

Hann getur hafist handa fullur hugrekkis og gleði, hefur ekkert að óttast, sé slíkt einlægur ásetningur hans! Því sáttum má ná með jákvæðum ásetningi, sem verður lifandi og að sterku vopni á andlega sviðinu og í öðrum hugsanamynstrum, og er þess umkominn að eyða sérhverri byrði sem af myrkrinu hlýst, sérhverju oki, og að færa »mig« nær ljósinu!

Styrkur ásetningsins! Vald sem fjölmargir gera sér enga grein fyrir, sem líkt og ævarandi segull dregur að sér jafn sterka krafta í þeim tilgangi að stækka á svipaðan hátt og snjóbolti; vald sem hefur, – eftir að hafa tengst andlega skyldum öflum – , afturvirk áhrif, hittir á ný fyrir útgangspunktinn, eða öllu heldur, upphafsaðilann, og hefur hann upp til ljóssins ellegar þröngvar honum niður í aur og eðju! Allt eftir því á hvern veg upphafsaðilinn áformaði að hlutirnir færu.

Sá sem þekkir þessa víxlverkan, sem er stöðugt í gangi með reglubundnum hætti, einkennir allt sköpunarverkið, losnar óhagganlega úr læðingi og blómstrar, kann að nýta sér hana, hlýtur að óttast hana! Fyrir hugskotssjónum hans lifnar ósýnilegur heimurinn í kringum hann smám saman við; hann skynjar áhrif hans á einhvern þann veg sem hafinn er yfir allan vafa.

Hann verður að gera sér grein fyrir sterkum bylgjum eirðarlausra athafna sem á honum dynja utan úr víðáttu alheimsins, leiði hann að því hugann eitt andartak, og að endingu verður honum ljóst að hann gegnir sama hlutverki, hvað þessa sterku strauma áhrærir, og sjóngler sem fangar geisla sólarinnar, beinir þeim á einn punkt og nær þannig að glæða neista sem í senn svíðir og spillir, græðir og fjörgar, veitir blessun og er þess umkominn að tendra leiftrandi bál.

Og þið eruð einnig slík sjóngler, vegna ásetnings ykkar þess umkomin að knýta þessa ósýnilegu krafta, sem á ykkur dynja, saman í orkuhneppi og geisla þeim frá ykkur til góðra verka eða illra og færa mannkyninu blessun ellegar hörmung. Þannig getið og eigið þið að tendra logandi bál í sálum fólks, eld hrifningar sem leitar þess sem gott, háleitt, fullkomið er!

Það eina sem til þarf er viljinn, viljinn sem á vissan hátt gerir manninn að drottnara sköpunarverksins, sem ákvarðar eigin örlög. Ásetningur hans sjálfs færir honum endanlegt hrap ellegar endurlausn! Skapar honum sjálfum umbun eða refsingu, af miskunnarlausu öryggi.

En óttist ekki að þessi vitneskja færi ykkur fjær skaparanum, rýri fyrri trú ykkar. Þvert á móti. Vitneskjan um þessi ævarandi lögmál, sem þið getið hagnýtt ykkur, gerir sköpunarverkið enn háleitara í hugum ykkar, vegna þeirra fellur sá sem dýpra leitar, á kné, í lotningu gagnvart mikilfengleik sköpunarverksins!

Þá mun maðurinn aldrei óska neins ills. Hann grípur fullur gleði í traustustu stoð sem honum býðst: Ástina! Ástina í garð undursamlegs sköpunarverks, ástina í garð náungans, í þeim tilgangi að gefa honum líka færi á að kynnast sælu þessarar nautnar, vitneskjunnar um þennan meðvitaða kraft.