Stirðnun

Í sköpunarverkinu er allt hreyfing. Hreyfingin, til komin, að öllu leyti í samræmi við lögmálin, vegna þrýstings ljóssins, getur af sér yl og lætur þar formin renna saman. Án ljóssins væri því engin hreyfing og maðurinn getur því ímyndað sér að hreyfingin hlýtur að ganga mun hraðar, sterkar í námunda við ljósið en fjær því.

Og í reynd er hreyfingin sífellt hægari og svifaseinni eftir því sem fjær dregur ljósinu, með tímanum getur hún meira að segja leitt til kyrrstöðu allra forma sem fyrr höfðu orðið til fyrir tilstilli enn hraðari hreyfingar.

Með hugtakinu »ljós« er hér vitaskuld ekki átt við ljós einhverrar tiltekinnar stjörnu, heldur frumljósið sem er lífið sjálft, það er að segja Guð!

Í framhaldi af þeirri mynd sem þar með er dregin upp af yfirgripsmiklum athöfnum innan sköpunarverksins
langar mig nú til að beina athyglinni um stund að jörðinni, sem nú fer eftir hringferlum sínum í mun meiri fjarlægð frá frumljósinu heldur en fyrir mörgum milljónum ára, þar eð mennirnir létu hana í hendur myrkursins, mennirnir sem fjarlægðust guð í kátbroslegum hégómaskap og í einhliða ofurtrú á skynseminni sem aðeins stefnir og stefna mun niðurávið til hins grófgerða, vegna þess að honum var það áskapað, en getur þó numið alla geislun og áhrif ofan frá bjartari hæðum.

Framheilinn annast alla starfsemi skynseminnar sem lýtur að ytri tilvist í grófgerðasta efnisheiminum, það er að segja í efninu, afturheilinn hins vegar annast móttöku og frekari úrvinnslu áhrifa að ofan, sem eru léttari, bjartari en grófgerður efnisheimurinn.

Þetta samhæfða starf beggja heilahluta í þágu mannsins raskaðist við einhliða ofuráherslu mannsins á jarðnesk fyrirbæri, það er að segja á athafnir grófgerða efnisheimsins og að endingu tók alveg fyrir þetta samspil, það skilið í tvennt, vegna þess að framheilinn hlaut að þroskast of mikið vegna allt of mikillar starfsemi miðað við afturheilann, sem var vanræktur og varð við það sífellt ófærari um að virka sem viðtaki og veslaðist upp. Þannig varð í árþúsunda rás, með mannfjölgun í efnisheimi hins grófgerða, til erfðaböl, því strax við fæðingu komu börn í þennan heim með betur þroskaðan framheila en afturheila og þar með var lagður grundvöllur að erfðasyndinni, sem einkennist þar af leiðandi af hugsunarhætti sem tekur einungis mið af því jarðneska, snýr þar með baki við Guði.

Allt þetta verður hverjum alvarlega þenkjandi manni skiljanlegt, auk þess sem ég hef útskýrt þetta margoft í ritum mínum.

Allt böl á jörðinni varð til við þetta, vegna þess að maðurinn, sökum andlegs uppruna síns, gat með vilja sínum þrýst niður öllu öðru sem fyrir var á jörðinni, þó svo að hann hefði getað hafið það og átt að hefja það allt til meiri vegs, því það var og er hinn eiginlegi tilgangur hans í endursköpuninni, en í henni er, eðli málsins samkvæmt, allt það sem andlegt er, hið leiðandi afl. Það getur leitt uppávið, sem væri eðlilegast, en getur allt eins vel stefnt niðurávið, ef vilji hins andlega stendur einkum til þess jarðneska, eins og gildir um jarðarbúa.

Í vitneskjunni um sköpunarverkið sem ég greini frá í boðskap mínum og þeirri útlistun sem þar er að finna um öll lögmálin sem starfa sjálfvirk innan sköpunarverksins, lögmál sem einnig má nefna náttúrulögmál, má og sjá órofa vef alls sköpunarverksins sem sýnir glögglega öll ferlin og þá um leið tilgang mannlífsins og eins hvaðan það kemur og hvert það heldur af ósnertanlegri rökfestu, og veitir þar af leiðandi svör við hverri spurningu, leiti maðurinn í raun slíkra svara.

Hér verða jafnvel illkvittnustu andstæðingar að nema staðar, þar eð hártoganir þeirra duga ekki til við grípa inn í og spilla fullkominni heildarmynd lýsingarinnar og eyðileggja þannig fyrir manninum þessa hjálp. – –

Ég gat þess að hreyfingin í sköpunarverkinu hlýtur ævinlega að verða hægari, því fjær sem eitthvað er frumljósinu, útgangspunkti þrýstingsins sem leiðir til hreyfingarinnar.

Þannig er nú ástatt fyrir jörðinni. Hringferlar hennar hafa stöðugt farið stækkandi sökum mannanna, hreyfingarnar verða þar af leiðandi hægari, sífellt silalegri, og margt er þar af leiðandi nú þegar við það að stirðna, sem væri skelfilegt.

Að stirðna gerist í mjög mörgum skrefum og verður ekki svo auðveldlega greint í byrjun. Og jafnvel á meðan þessi breyting á sér stað er ógerningur að gera sér grein fyrir henni, nema ef vera skyldi að eitt einstakt ljósleiftur vekti upp skýra athygli.

Það er strax erfitt vegna þess að allt sem lifir og hrærist í hringferli þessara sífellt hægari hreyfinga sogast samtímis inn í vaxandi þéttinguna sem leiðir að lokum til stirðnunar. Og þá ekki aðeins líkami mannsins heldur allt, einnig hugsun hans. Og á við um hinstu smáatriði. Öll hugtök breyt­ast einnig og hnikast til án þess að eftir því sé tekið, meira að segja þau sem snerta hina eiginlegu merkingu tungunnar.

Maðurinn verður þessa ekki var í fari náungans því hann dregst á sama hátt inn í sömu hægu tilfærsluna, nema hann fyrir eigin viljastyrk og seiglu reyni að slíta sig lausan og hefjast enn einu sinni upp andlega og komast þannig á ný nær ljósinu svo að andi hans verði smám saman líka hreyfanlegri og þá um leið léttari, bjartari og hafi áhrif á jarðneska skynjunina.

En þá sér hann sér til skelfingar með geigvænlegum hryllingi eða skynjar að minnsta kosti hversu langt afbakanir allra hugtaka eru leiddar. Það vantar alveg víðsýni hins eiginlega vegna þess að búið er að þröngva öllu inn í órjúfanleg landamörk, þar sem allt sem innan þeirra er mun að vissum tíma liðnum kafna.

Ég hef oft vakið athygli á afbökuðum hugtökum, en nú færast þau hægt og rólega niðurávið á leið sinni til stirðnunar eftir því sem fjær dregur ljósinu.

Þess gerist ekki þörf að tilfæra einstök dæmi, það yrði ekki tekið eftir slíkum útskýringum eða þær yrðu afgreiddar sem þreytandi orðhengilsháttur vegna þess að menn eru of þrjóskir eða sljóir til að hugleiða þessi mál til hlítar.

Ég ræddi einnig til hlítar um mátt orðsins, þann leyndardóm að orð mannsins á vettvangi jarðarinnar getur á tilteknum tíma haft jákvæð eða neikvæð áhrif á störf sköpunarverksins vegna þess að hljóðið, tónfallið og samsetning orðsins getur leyst sköpunarkrafta úr læðingi sem ekki starfa eins og mælandinn ætlaði heldur eins og orðið ætlaði samkvæmt merkingu sinni.

En merkingin var eitt sinn skilgreind með vísan til kraftanna sem orðið leysti úr læðingi og sem eru þar með stilltir nákvæmlega með tilliti til réttrar merkingar þess eða, sagt á hinn veginn, vilja þess sem mælir. Merking og orð urðu til úr sambærilegum hreyfingum krafta, því eru þau ein órjúfanleg heild!

Hugsun mannsins leysir aftur á móti annað kraftaflæði úr læðingi með tilliti til merkingar hugsunarinnar. Því ætti maðurinn að gera sér far um að velja réttu orðin til að tjá hugsun sína, og skynja þess vegna betur og skýrar.

Gefum okkur að einhver verði spurður um eitthvað sem hann hefur heyrt getið, jafnvel séð að hluta til. Aðspurður myndi hann vafningalaust halda því fram að hann viti þetta!

Að áliti margra yfirborðskenndra manna væri þetta rétt svar, en þó er það í reynd rangt og ámælisvert vegna þess að »að vita« merkir að geta veitt nákvæmar upplýsingar um allt, frá upphafi til enda, hvert smáatriði, af eigin reynslu og skilja ekkert undan. Þá fyrst getur maður haldið því fram að hann viti umrætt atriði.

Það býr mikil ábyrgð í fullyrðingunni og hugtakinu »vita« sem henni tengist!

Ég benti einnig eitt sinn á þann mikla mun sem er á »vitneskju« og »því sem lært var«. Lærdómur er langt frá því að veita raunverulega vitneskju, sem aðeins fæst með eigin upplifun á meðan það sem lært var lýtur að því að tileinka sér aðfengna reynslu.

Að heyra eða jafnvel að sjá að hluta til er langt frá því að vera vitneskjan sjálf! Maðurinn getur ekki haldið eftirfarandi fram: Ég veit það, heldur gæti hann í mesta lagi sagt: Ég hef heyrt af því eða séð, en er sannleikans vegna skylt að segja, vilji hann gjöra rétt: Ég veit það ekki!

Það væru þá, hvernig sem á væri litið, réttari viðbrögð heldur en ef hann greindi frá einhverju sem hann hefði ekki komið nálægt sjálfur og væri þar með ekki eitthvað sem hann vissi í raun og veru, og hlutafrásögn hans myndi aðeins tortryggja fólk eða íþyngja því, jafnvel valda því óhamingju að ósekju, án þess að þekkja hið raunverulega samhengi. Vegið því gaumgæfilega og af næmni sérhvert orð sem þið hyggist nota.

Sá íhugulli, sem ekki sættir sig við þegar stöðnuð hugtök sér til afsökunar fyrir orðagjálfur, merkilegheit og illt innræti, á auðvelt með að skilja útlistanir þessar og að læra að víkka sjóndeildarhringinn með þögulli íhugun í hvert sinn er hann mælir.

Hugtakabrengl af þessu tagi kemur fyrir ótal sinnum og er orðið að vana meðal mannanna með hörmulegum afleiðingum, tekið upp í græðgi og veitt brautargengi meðal þræla skilningsgáfunnar og fylgisveina áhrifamáttar Lúsífers og lamandi dulúðar hans.

Lærið að fylgjast af athygli með og að nýta rétt flæðið í sköpunarverkinu sem hefur fólgið í sér vilja Guðs og þar með óspjallað réttlæti Guðs. Þá munuð þið endurheimta hið sanna eðli mannkyns sem þið voruð svipt.

Hversu mikla þjáningu væri ekki hægt að forðast og hversu mikinn illvilja meðal mannanna væri ekki hægt að koma
í veg fyrir.

Þessum illvilja er líka um að kenna að frásögnin af jarðvist guðssonarins Jesú er ekki að öllu leyti sannleikanum samkvæmt, sem leiðir til þess að jafnvel enn þann dag í dag er myndin af henni í hugum fólks alröng. Á sama hátt hagræddu menn orðum hans líkt og í öllum fræðum sem hafin voru á trúarstall og sem áttu að færa mönnunum upphafningu og fullkomnun andans.

Þar er einnig að finna glundroðann mikla meðal allra manna sem reynist sífellt erfiðara að gera sig skiljanlega, sem nærir og lætur blómstra ófrið, tortryggni, rógburð, öfund og hatur.

Allt eru þetta svo ekki verður um villst merki um vaxandi stirðnun á jörðu!

Hefjið upp andann, hugsið og mælið af víðsýni og stórhug! Það leiðir síðan til þess að þið athafnið ykkur ekki aðeins út frá skilningi, sem tilheyrir grófgerðasta efnisheiminum, leiðir einnig til þess að þið gefið líka andanum á ný svigrúm til að leiða skynsemina, sem ber að þjóna andanum samkvæmt ákvörðun skapara ykkar, sem frá upphafi og enn í dag lætur ykkur fæðast hér á jörð.

Allt þetta er þegar að finna á fyrsta þrepi stirðnunarinnar, brátt getur það smitast yfir á alla hugsun ykkar og dreifst eftir ósveigjanlegum brautum sem færa ykkur aðeins vanlíðan, þjáningu á þjáningu ofan, og dregið ykkur niður á stig innihaldslausrar vélar sem aðeins þjónar dulúðinni, fjarri öllu ljósi.