Skírlífi

Skírlífi er hugtak sem jarðarbúar hafa þrengt á ótrúlegan hátt, og það svo mjög að ekkert er eftir af raunverulegri merkingu þess, hún var meira að segja afskræmd og henni breytt sem hafði að sjálfsögðu í för með sér að hún kallaði óþarfa harm yfir fjölmarga og olli meira að segja mjög oft ólýsanlegum þjáningum.

Þið getið spurst fyrir hvar sem er hvað skírlífi sé, og alls staðar munuð þið fá sama svar, hugtakið óspjallaður líkami í einhverri mynd, að minnsta kosti sameinast skoðanir manna í þessari mynd.

Þetta ber smásálarhætti þeirra glöggt vitni sem lúta skilningsgáfunni sem dró sjálf mörk þess sem jarðneskt er, vegna þess að hæfileikar hennar ná ekki lengra, enda eru þeir sprottnir af þeim heimi.

Samt ætti maðurinn svo hægt með að teljast þar skírlífur og geta sér góðan orðstír, í stað þess að sóla sig í hégómlegri sjálfumgleði. En hann færist ekki einu skrefi nær þeim björtu lendum, Paradís, sem eru hið gæfuríka lokatakmark hvers mannsanda.

Það stoðar lítt að halda grófgerðum líkamanum ósnortnum en flekka anda sinn sem fyrir bragðið mun aldrei komast yfir þá þröskulda sem liggja frá einu þrepi upp á það næsta.

Skírlífi merkir annað en mennirnir hyggja, það er mun víðtækara, stærra, krefst þess ekki að streist sé á móti náttúrunni, því það væri brot á þeim lögmálum Guðs sem ríkja í sköpunarverkinu, og myndi aðeins hafa óheillavænlegar afleiðingar í för með sér.

Skírlífi er jarðneskt hugtak yfir hreinleika, sem er guðlegs eðlis. Skírlífi merkir í hugum mannanna sókn einhvers ímyndaðs guðlegs fyrirbæris í athafnir í grófgerða efnisheiminum. Hreinleiki er guðlegur, skírlífi er eftirlíking sem mannsandinn gerir sér af honum, með öðrum orðum andleg eftirmynd, sem getur orðið og á að verða sýnileg með jarðneskum athöfnum.

Þetta ætti að nægja sérhverjum þroskuðum mannsanda sem grundvöllur þess að lifa skírlífi. En á jörðinni hneigist maðurinn til þess að villa sjálfum sér sýn, láta undan þrýstingi ýmissa séróska sem hann telur sig hafa en sem í reynd búa ekki innra með honum, til þess eins að fullnægja löngunum sínum.

Sjálfselskan ræður förinni og bælir frómustu langanir hans! Maðurinn mun aldrei viðurkenna þetta fyrir sjálfum sér, heldur kýs hann að láta berast með straumnum. Og þegar hann er algerlega kominn í rökþrot gefur hann augljósri sókn sinni í að fullnægja véfengjanlegum eiginhagsmunum heitið örlög, og þeim verði maður að lúta.

Hann hefur því þörf fyrir annars konar leiðbeiningar sem haldreipi og fótfestu, sem gera honum kleift að skynja og skilja hvað skírlífi er í reynd, á hvern hátt það samræmist vilja Guðs, sem ekki vill neina aðgreiningu frá náttúrunni á jörðinni.

Í hinu guðlega er hreinleiki nátengdur ást. Því er manninum á jörðinni óheimilt að reyna að skilja þar á milli, kjósi hann að þau færi sér blessun.

Þó er ást hér á jarðríki einnig aðeins skrumskæling þess sem hún er í raun og sannleika. Þar af leiðandi nær hún ekki, að óbreyttu, að sættast við hið eiginlega hugtak hreinleikans.

Hér með ætla ég að gefa öllum þeim sem sækjast eftir því að öðlast skírlífi, leiðbeiningar sem veita þeim þá fótfestu sem maðurinn þarfnast á jarðríki til þess að lifa í samræmi við lögmál sköpunarverksins og þar með á þann hátt sem er Guði þóknanlegur:

»Hver sá sem í athöfnum sínum gætir þess að gera aldrei nokkuð á hlut náunga síns, sem treystir honum, aðhafast aldrei neitt það sem gæti íþyngt honum síðar meir, breytir ávallt þannig að hann verður andlega óflekkaður og getur kallast skírlífur í reynd!«

Þessi einföldu orð, rétt skilin, geta leitt manninn og verndað gegnum allt sköpunarverkið
og fært hann til þeirra björtu lendna sem eru hin eiginlegu heimkyni hans. Þessi orð eru lykillinn að réttri iðju á jörðinni, því í þeim býr hið sanna skírlífi.

Sonur Guðs, Jesús, orðaði þessa hugsun svo:

»Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig!«

En þið verðið að gæta þess að falla ekki í sömu gryfjur og fyrr og hnika og sveigja til merkingu þeirra svo þau þjóni eiginhagsmunum ykkar, sefi huga ykkar þrátt fyrir misgjörðir og kenni meðbræðrum ykkar kæruleysi eða slái jafnvel ryki í augu þeim.

Nemið þessi orð eins og ber að skilja þau, ekki eins og þau hugnast ykkur og henta eiginhagsmunum ykkar. Þá verða þau í höndum ykkar eins og beittasta sverð sem þið getið beitt eins og ykkur þóknast í baráttunni gegn myrkrinu. Látið þau lifna á réttan hátt í brjóstum ykkar, til þess að skilja sigrihrósandi og í þökk lífið á jörðinni!