SIÐSEMI

Dimmt óveðursský hvílir yfir mannkyninu. Loftið er rakamettað. Sljó skynjun sérhvers manns er að störfum, undir hljóðu fargi. Þandar til hins ítrasta eru aðeins þær taugar sem snerta tilfinningar og eðlisávísun líkamans. Örvaðar af sjónhverfingum og villum rangs uppeldis, rangra skoðana og sjálfsblekkingar

Nútímamaðurinn er að þessu leyti ekki með sjálfum sér en er þess í stað haldinn sjúklegri, allt að því tífaldri kynhneigð, sem hann reynir að dýrka á mörghundruð mismunandi vegu, og sem hlýtur að steypa gjörvöllu mannkyninu í glötun.

Allt virkar þetta með tíð og tíma líka sem smitandi gola á alla þá sem ríghalda sér í fyrirmynd sem þeir eiga falda í óljósri meðvitundinni. Þeir teygja arma sína í átt til hennar en sleppa síðan ævinlega aftur taki á henni á ný, andvarpa, vonlausir, örvæntingarfullir, þegar þeim verður litið í kringum sig.

Í hljóðu máttleysi horfa þau með hryllingi á hvernig fyrri hugmyndir um siðsemd og siðleysi molna hröðum skrefum og hvernig hugtakakerfið breytist á þann veg að fjölmargt af því sem hefði vakið viðbjóð og fyrirlitningu fyrir skemmstu þykir núorðið harla venjulegt og raskar ekki ró nokkurs manns.

En bikarinn er bráðum barmafullur. Það hlýtur að koma til skelfilegrar vitundarvakningar!

Nú þegar hniprar þessi lostaþjáði fjöldi sig stundum saman, með öllu ósjálfrátt og ómeðvitað. Efasemdir leita sem snöggvast á margan manninn, en það nægir ekki til að hreyfa við þeim, vekja þá til skýrrar vitundar um lítilmótlegar kenndir þeirra. Því næst tekur tvöföld ákefð við og hyggst hrista af þeim og jafnvel kaffæra slíkan »veikleika« eða »síðustu leifar« úreltra skoðana.

Þróun skal það vera, hvað sem það kostar. En þróun getur verið í tvær áttir. Uppávið eða niðurávið. Eftir því hvort maður velur. Og eins og staðan er núna er stefnt með ógnarhraða niðurávið. Í fyllingu tímans á höggið eftir að splundra þeim sem þannig hrapa, því fyrirstaðan verður öflug.

Í þessu læviblandna andrúmslofti hrannast óveðursskýin upp, ógnþrungin. Á hverri stundu er fyrstu eldingar að vænta sem kljúfa mun myrkrið og lýsa það upp, sem bregður miskunnarlausum og skærum logabjarma á leyndustu fylgsni og færir frelsi þeim sem leita ljóss og birtu, en glötun þeim sem ekki þrá ljósið.

Því meiri tíma sem skýin hafa til að myrkvast og þykkna, þeim mun skærara og skelfilegra verður leiftrið sem skýin senda. Þá hverfur mjúkt og slævandi frygðarfullt loftið því eðli málsins samkvæmt fylgir fyrsta eldingar­blossa ferskur, svalandi andblær sem ber með sér nýtt líf. Í köldum, skýrum bjarma ljóssins verður hulu ósanninda hræsninnar svipt af afmynduðu afsprengi drungalegrar ímyndunar frammi fyrir augliti skelfingu lostins mannkyns.

Vitundarvakningin í sálum manna verður líkust höggbylgju ægilegrar þrumu þannig að lifandi vatn óspilltrar sannleikslindar geti streymt yfir frjóan jarðveg sem þannig opnast. Dagur frelsis rennur upp. Frelsun úr álögum árþúsundagamals siðleysis sem nú stendur í fullum blóma.

Litist um! Lítið á lesefnið, dansana, klæðaburðinn! Nú á tímum, meir en nokkru sinni fyrr, er leitast við að rífa niður öll skil milli tveggja kynja og saurga kerfisbundið hreinleika tilfinninganna og afskræma þær þar með og grímuklæða þær, kæfa þær að lokum, sé þess nokkur kostur.

Mennirnir deyfa efasemdirnar sem upp kunna að koma með orðaflaumi sem, þegar grannt er skoðað, sprettur úr kynhvötinni sem bærist innra með þeim, til þess að næra fýsnirnar á ótal nýja vegu, leynt og ljóst.

Þeir tala um upptök að frjálsri, sjálfstæðri tilveru mannsins, um þroska innri styrks, um líkamsmenningu, fegurð nektarinnar, æðri íþróttir, kennslu í endurlífgun orðsins: »Allir hlutir eru hreinum hreinir!«, í stuttu máli: Upphafning kynlífsins með því að leggja af alla »tepurð« í því skyni að skapa æðri, frjálsan mann, sem erfa muni landið! Vei þeim sem þorir að mæla því í mót! Sá sem er þetta frakkur verður samstundis fyrir ýlfrandi grjótkasti ávirðinga eins og fullyrðingunni að aðeins óhreinar hugsanir ráði því að hann »hafi eitthvað við þetta að athuga!«

Lamandi, eitrað andrúmsloft sem leggur frá ólgandi iðuköstum illa þefjandi vatns, líkast ofsjónum morfínvímunnar sem fólk gefur sig á vald hundruðum og þúsundum saman uns það ferst þar í máttleysi sínu.

Bróðirinn hyggst uppfræða systur sína, börnin foreldra sína. Eins og flóðbylgja í óveðri geysist það yfir alla menn og brimrót myndast þar sem einstaka ráðvandir og sómakærir menn standa fyrir sem klettar úr hafi. Margir sem finna mátt sinn dvína í þessum ólgusjó ríghalda sér í þá. Þeir eru vel séðir, þessir litlu hópar, eins og vinjar í eyðimörk. Veita eins og þær svölun, kyrrð og hvíld göngumanni sem brjótast þarf gegn eyðingaröflum eyðimerkurstormsins.

Það sem predikað er í fögrum skikkjum um framfarir, er ekkert annað en fagurgali í þágu stórfellds blygðunarleysis, eitur hverri háleitri tilfinningu mannsins. Versta sótt sem mannkynið hefur nokkru sinni orðið fyrir. Og eitt vekur furðu: Það er eins og fjölmargir hafi beðið þess að þeim yrði færð trúverðug tylliástæða til að niðurlægja sjálfa sig. Þessu taka ótal manns fagnandi!

En sá sem þekkir andlegu lögmálin sem í heiminum gilda mun snúa sér undan, fullur viðbjóðs, gagnvart þessari viðleitni. Lítum aðeins nánar á einhverja »saklausustu« skemmtunina: »Fjölskylduböðin«.

»Allir hlutir eru hreinum hreinir!«. Þetta hljómar svo vel að í skjóli þessara fallegu orða verður eitt og annað heimilt. En við skulum virða aðeins nánar fyrir okkur einföldustu fíngerðu fyrirbærin í slíku baði. Gefum okkur að þarna séu þrjátíu manns af báðum kynjum og tuttugu og níu þeirra flekklaus í öllu tilliti. Þetta er forsenda sem er fyrirfram gersamlega óhugsandi því hið gagnstæða væri sönnu nær, og jafnvel það væri fáheyrt. En gefum okkur þessa forsendu engu að síður.

Þessi eini, sá þrítugasti, er haldinn óhreinum hugsunum vegna þess sem fyrir augu ber þó svo að hann hegði sér ef til vill óaðfinnanlega að sjá. Þessar hugsanir taka umsvifalaust á sig fínkennda mynd lifandi hugsana, dragast að því sem á er horft og festast við það. Þetta er saurgun, og gildir þá einu hvort þeim fylgi orð eða athafnir!

Viðkomandi aðili ber þessi óhreinindi með sér, sem eru þess megnug að laða að sér viðlíka ráfandi hugmyndir. Andrúmsloftið þéttist meir og meir í kringum hann og getur að lokum haft skaðvænleg áhrif á hann og eitrað, líkt og vafningsviður sem lifir deyðandi sníkjulífi á alheilbrigðum trjástofni.

Þetta eru þau fíngerðu fyrirbæri sem eiga sér stað í svonefndum »saklausu« fjölskylduböðum, í samkvæmisleikjum, dönsum og fleiru.

En nú verður að hafa í huga að þessi böð og afþreyingu sækja að minnsta kosti allir þeir sem eru beinlínis að leita að einhverju því sjónrænu sem æst getur upp slíkar hugsanir og kenndir! Hvaða saurugu fyrirbærum hægt er að ala á með þessum hætti, án þess að slíks verði vart í grófgerðu efninu, er auðvelt að útskýra.

Það er síðan jafn viðbúið að þetta sífellt vaxandi ský holdlegra hugsana hljóti smám saman að hafa áhrif á ótal manns sem í eðli sínu leita ekki slíkra hluta. Hjá þeim skjóta í fyrstu upp kollinum óljósar en síðar áleitnari lifandi hugmyndir sem nærast á margs kyns »framförum« í umhverfi sínu, og á þennan hátt sogast hver á eftir öðrum inn í seigfljótandi dökka iðu þar sem hugmyndin um hið sanna hreina og siðsama formyrkvast og sogar að endingu allt niður í hyldýpi almyrkurs.

Þessi tækifæri og þessar hvatningar til frekari útbreiðslu verður umfram allt að fjarlægja! Þær eru ekkert annað en útungunarstaður, pestarbæli þar sem hugsanir ósiðvands fólks klekjast út og breiðast síðan yfir heimsbyggðina, stofna til sífellt nýrra útungunarstöðva sem að endingu mynda samfelldan akur viðbjóðslegra plantna er frá stafar eitruðum gufum sem kæfa um leið það sem heilt er.

Rífið ykkur laus úr þessari vímu sem læst eins og eiturlyf veita styrk, en færir þó í reynd aðeins slen og fár!

Það verður að teljast eðlilegt, þótt hryggilegt sé, að það skuli einmitt vera konur sem fara út fyrir öll siðsemdarmörk og sökkvi svo djúpt að líkjast helst gleðikonum í klæðaburði.

En það sannar aðeins það sem sagt var um fyrirbæri fíngerða efnisheimsins. Það er einmitt vegna þess að konan, sem í eðli sínu er næmari, tekur þetta eitur spilltra hugarmynda hins fínlega fyrr og dýpra til sín, án þess að vera sér þess meðvituð. Henni stafar meiri ógn af þessum hættum, hrífst þar af leiðandi fyrr af þeim og fer óskiljanlega fljótt og áberandi út fyrir öll mörk.

Það er ekki að ástæðulausu að sagt er: »Þegar konur spillast verða þær spilltari en karlar!«. Þetta gildir á öllum sviðum, hvort heldur í grimmd, hatri eða ástum! Gjörðir konunnar ráðast alltaf af fíngerðri veröldinni sem umlykur hana! Vissulega eru til undantekningar frá því. Konan er ekki laus allrar ábyrgðar í þessum málum, því hún er fær um að eygja áhrifin sem á henni dynja og stjórna eigin löngun og gjörðum, ef … hún vill það við hafa! Að meirihlutinn skuli ekki bregðast þannig við eru mistök hins kvenlega kyns og er eingöngu algjörri vanþekkingu í þessum efnum um að kenna.

Það sem er slæmt um þessar mundir er að konan skuli í reynd hafa framtíð þjóðarinnar í hendi sér. Framtíðin er í hennar höndum vegna þess að sálarástand konunnar hefur mun meiri áhrif á afkomendurna heldur en sálarástand karlsins. Hvílíkar hörmungar sem framtíðin hlýtur þar af leiðandi að bera í skauti sér! Óumflýjanlega! Hér fá hvorki vopn, fé né uppgötvanir nokkrum vörnum við komið. Ekki heldur góðvild eða stjórnvaldsspeki. Hér þurfa mun áhrifaríkari aðgerðir að koma til.

En konan ber ekki ein ábyrgð á þessari skelfilegu sök. Hún verður
aldrei annað en nákvæm spegilmynd þess hugmyndaheims sem hennar fólk býr við. Því megum við ekki gleyma.
Virðið og heiðrið konuna sem slíka og þannig mótast hún, verður að því sem þið sjáið í fari hennar og á þann hátt göfgið þið þjóð ykkar!

En áður þurfa miklar breytingar að koma til meðal kvenna. Eins og þær eru nú getur engin lækning orðið nema með róttækri aðgerð, hatrömmu, miskunnarlausu inngripi sem fjarlægir sérhvert kýli með beittum hnífum og varpar því á eld! Að öðrum kosti myndi það leggjast á alla heilbrigða vefi.

Nútíminn siglir hraðbyri og óstöðvandi í átt að þessari nauðsynlegu aðgerð sem gera þarf á mannkyninu öllu, hraðar, sífellt hraðar, og kallar hana sjálfur yfir sig! Það verður sársaukafullt, skelfilegt, en að lokum fæst lækning. Þá fyrst er tímabært að tala um siðsemd. Núna hljóðnaði slíkt tal eins og orð í stormi talað.

En þegar stundin er runnin upp þegar þetta lastabæli hlaut að hrynja til grunna vegna þess hversu feyskið það var orðið, þá skuluð þið taka mið af konunum! Gjörðir þeirra og athafnaleysi munu ávallt sýna hvernig þið eruð því vegna næmni þeirra endurspeglar líf þeirra það sem hugarmyndirnar vilja.

Þessi sannindi vekja líka með okkur þá vissu að hvað hreinar hugsanir og skynjun áhrærir mun konan verða fyrst til að rísa upp og verða sú fyrir­mynd sem við nefnum eðalmenni. Þá hefur siðsemin í öllum glæsileika sínum sem hið hreina, hafið innreið sína!