Örlög

Manninum er tamt að tala um verðskulduð og óverðskulduð örlög, um umbun og refsingu, hefnd og karma.

Allt er þetta aðeins umorðun á einu lögmáli sköpunarverksins: Lögmálinu um víxlverkun! Lögmál sem búið hefur í sköpunarverkinu frá upphafi og fléttað var órjúfanlega inn í stórt eilíft verkið sem nauðsynlegur hluti sköpunarinnar sjálfrar og þróunarinnar.
Það liggur eins og gríðarstórt kerfi fínustu taugaþráða og tengir saman, glæðir, allan alheiminn og knýr áfram stöðuga hreyfingu, gefur og tekur í sífellu!

Einfalt og látlaust en samt svo hnitmiðað, eins og Jesús Kristur sagði:
»Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera!«

Þessi fáu orð lýsa svo einstaklega vel myndinni af gangverki alls sköpunarverksins, að vart verður betur gert. Merking þessara orða er ofin óhagganlega í tilvistina. Óbifanleg, ósnertanleg, óhagganleg í stöðugri verkan.

Þið getið séð það ef þið viljið sjá! Byrjið fyrst á að veita athygli sýnilega umhverfi ykkar. En það sem þið nefnið náttúrulögmál eru guðlegu lögmálin, eru vilji skaparans. Þið gerið ykkur fljótt grein fyrir því hvernig þau eru stöðugt að verki; eins og ef þið sáið hveiti uppskerið þið ekki rúg, ef þið sáið rúgi uppskerið þið ekki hrísgrjón!

Þetta þykir hverjum manni svo sjálfsagt að hann leiðir ekki hugann að því sem raunverulega býr að baki. Hann er sér þess vegna ekki meðvitaður um sterk og máttug lögmálin sem að baki búa. Og þrátt fyrir það stendur hann frammi fyrir óleystri ráðgátu, sem þarf ekki að vera honum nein ráðgáta.

Þetta sama lögmál sem þið horfið nú á er jafn örugglega og máttugt að störfum í allra smágerðustu hlutum sem þið getið aðeins komið auga á í gegnum stækkunargler, og ennfremur í fíngerða hluta alls sköpunarverksins, en hann er mun stærri en sá fyrri. Í sérhverjum atburði sér lögmálsins stað án afláts, einnig í hárfínni þróun hugsana ykkar, en þær eru enn að nokkrum hluta efniskenndar. Hvernig hvarflaði að ykkur að hlutirnir væru öðruvísi þar sem þið vilduð að þeir væru öðruvísi? Efasemdir ykkar eru, þegar vel er að gætt, ekkert annað en fram bornar innri óskir!

Í allri tilvist, þeirri sem ykkur er sýnileg og eins þeirri sem ykkur er ósýnileg, er hlutunum svo fyrir komið að sérhver gerð getur af sér sömu gerð, sama úr hvaða efni. Þannig halda sífellt áfram vöxtur og tilurð, afkvæmi og afsprengi sömu gerðar. Þessi framvinda er eins alls staðar, gerir hvergi greinarmun, skilur hvergi eftir gloppur, nemur ekki staðar framan við hinn hluta sköpunarverksins, heldur færir áhrif sín þangað innfyrir eins og óslítanlegan þráð og linnir ekki störfum.

Jafnvel þó svo að stærsti hluti mannkyns, fyrir sakir takmarkana sinna og hroka, myndi snúa baki við alheiminum, myndu guðleg eða náttúrulögmál ekki hætta að telja þann hluta til alheimsins og myndu starfa áfram óbreytt fyrir því, jafnt og örugglega.

Af lögmáli víxlverkunar leiðir einnig að maðurinn verður alltaf að uppskera eins og hann sáir, til dæmis þegar hann er orsök tiltekinna afleiðinga eða áhrifa!

Maðurinn stendur ævinlega frammi fyrir því að hann á aðeins kost á þeirri frjálsu ákvörðun í upphafi hvers máls að ákveða í hvaða farveg almáttugum kraftinum verði beint sem um hann streymir, í hvaða stefnu. Afleiðingum kraftsins sem hann beindi í þessa stefnu sem hann kaus sér verður hann síðan að taka. Þrátt fyrir það hamra margir á þeirri fullyrðingu að maðurinn hafi alls engan frjálsan vilja, ef hann er ofurseldur örlögunum!

Slíkri heimsku er ekki ætlað annað en sjálfsblekking eða að vera til þess fallin að sætta sig við eitthvað óumflýjanlegt, uppgjöf, en þó fyrst og fremst að leita friðþægingar hjá sjálfum sér; vegna þess að sérhver áhrif og afleiðing sem hann verður að sæta eiga sér upphaf, og í þessu upphafi var að finna rót þeirra afleiðinga sem síðar komu fram, vegna undangenginnar frjálsrar ákvörðunar mannsins.

Þessi frjálsa ákvörðun er undanfari sérhverrar víxlverkunar, það er sérhverra örlaga! Með upphaflegum ásetningi kemur maðurinn í hvert sinn einhverju til leiðar, sem hann þarf fyrr eða síðar að una og búa við. Hvenær það gerist er hins vegar mjög mismunandi. Það kann að gerast í sömu jarðvist og fyrsti ásetningurinn sem hratt þessari atburðarás af stað, en það getur allt eins vel gerst í fíngerða heiminum eftir að hafa varpað af sér grófgerða líkamanum, eða jafnvel enn síðar, í grófgerðri jarðvist.

Ummyndanirnar skipta þar engu máli, þær leysa manninn ekki undan afleiðingunum. Þræðina sem tengja allt saman ber hann stöðugt með sér uns hann hlýtur endurlausn, það er verður »leystur« undan þessari kvöð með því að taka afleiðingunum, sem eru til komnar fyrir tilstilli lögmáls víxlverkunar.

Upphafsmaðurinn er bundinn af eigin gjörðum, jafnvel þó svo hann hafi ætlað þær öðrum!

Taki til dæmis í dag maður þá ákvörðun að gera einhverjum illt, með hugsunum, orðum eða gjörðum, þá hefur hann »komið einhverju til leiðar«, óháð því hvort það er almennt sýnilegt eða ekki, sem sagt, hvort heldur er grófgerðs eða fíngerðs eðlis. Í því er fólginn kraftur og þar með líf sem þróast og færist í þá stefnu sem mörkuð var í upphafi.

En hvernig áhrifin koma niður á þeim sem þau voru ætluð fer að öllu leyti eftir sálrænu ásigkomulagi viðkomandi aðila, og getur valdið honum annað hvort miklu eða litlu tjóni, ef til vill öðru tjóni en til var ætlast, eða jafnvel alls engu tjóni; því sálarástand viðkomandi gildir aðeins um hann sjálfan. Það er því enginn ofurseldur slíkum hlutum varnarlaust.

Öðru máli gegnir um þann sem með ákvörðun sinni hratt atburðarásinni af stað, var upphafsmaðurinn. Orsökin er tengd við hann skilyrðislaust og hittir hann aftur fyrir, eftir skemmri eða lengri vegferð um alheiminn, af auknu afli, eins og býfluga á heimleið, fyrir tilstilli aðdráttarafls sömu gerðar.

Lögmál víxlverkunar verður virkt við það að upphafsatburður, á för sinni um alheiminn, dregur til sín ýmislegt það sem er sömu gerðar, eða dregst sjálfur að slíkum fyrirbærum, en við samruna þeirra myndast nýr kraftbrunnur, sem endurkastar, líkt og út frá miðpunkti, enn sterkari krafti sömu gerðar til allra þeirra, sem vegna upphafsatburða sinna eru tengdir við þessa safnstöð sömu gerðar, eins og lægju á milli þeirra þræðir.

Við þessa styrkingu gerist auk þess sívaxandi þétting efnis uns út fellur grófgert efni sem fyrrum upphafsaðili þarf síðan að nota til þess að taka á sig mynd sömu gerðar og hann kaus sér þá, til þess að losna endanlega.

Þannig myndast og umbreytast örlögin, sem menn óttast svo mjög og rangtúlka! Þau eru sanngjörn allt til hinstu og fínustu sundurgreiningar vegna þess að aðdráttur aðeins sömu gerðar í endurvarpinu leyfir ekkert annað en það sem raunverulega var ætlunin í upphafi.

Og þá gildir einu hvort einhver tiltekinn annar var hafður í huga eða ekki; því framvindan er vitaskuld sú sama, hvort sem maðurinn hafi upphaflega ætlað að beina áhrifunum af ætlunarverki sínu að einhverjum tilteknum eða fleiri; það er fyrst og síðast gerð ætlunarverksins sem ræður.

Það er gerð ætlunarverksins sem hann tók ákvörðun um, sem ræður öllu um afleiðingarnar sem hann hlýtur að taka að lokum. Þannig eru ótal fíngerðir þræðir undir manninum komnir, eða hann undir þeim kominn, sem allir munu flytja honum til baka allt það sem hann eitt sinn áformaði. Úr þessu aðstreymi verður til blanda sem hefur stöðug og sterk áhrif á myndun persónuleikans.

Þannig eru í stórvirku gangverki alheimsins margir þættir sem samanlagt ráða »gengi« mannsins, en það er ekkert það til sem ekki verður rakið til mannsins sjálfs í fyrstu.

Hann leggur til efnið sem úr er ofin án afláts, á vefstól tilvistarinnar, kápan sem hann þarf að bera.

Kristur lýsti þessu skýrt og skilmerkilega er hann mælti: »… það mun hann og uppskera.« Hann sagði ekki hann »getur« heldur hann »mun«. Það er það sama og: Hann verður að uppskera það sem hann sáir.

Hversu oft heyrum við ekki mjög skynsamt fólk segja: »Það er mér óskiljanlegt að Guð skuli leyfa þetta!«

Það óskiljanlega er hins vegar, hvernig fólk getur sagt annað eins! Hversu smár virðist þeim Guð vera, af þessari fullyrðingu að dæma. Þau sanna með þessu að þau sjá hann fyrir sér sem Guð »geðþóttans«.

En Guð kemur alls ekki beint við sögu í þessum smáu sem stóru áhyggjuefnum mannsins, stríðum, eymd og öllu því öðru sem jarðneskt er! Strax í upphafi óf hann fullkomin lögmál sín inn í sköpunarverkið, þar inna þau starf sitt af hendi sjálfkrafa og óhagganlega þannig að allt gangi nákvæmlega eftir, eilíflega í réttri röð, sem útilokar jafnframt að einhverju sé hyglað eða því gert erfitt fyrir, að til nokkurs ranglætis geti komið.

Guð þarf því ekkert sérstaklega að koma þar nærri, verk hans er fullkomnað.

Meginvilla margra manna er hins vegar sú, að þeir dæma eingöngu út frá því sem grófgerðs efnis er og líta á sig sem miðpunkt þess, auk þess sem þeir gera ráð fyrir einu jarðlífi, þó svo að þeir eigi nú þegar að baki í reynd allmörg jarðlíf. Þessi jarðlíf, sem og millibilstímarnir í fíngerða heiminum, mynda eina samfellda tilvist þar sem allt tengist með órofa strengjum, en þó þannig að í hverri tiltekinni jarðvist verður samt ekki nema hluti þessara strengja sýnilegur, þegar horft er til afleiðinganna.

Það er því reginfirra að halda að með því að fæðast hér á jörð hefjist algerlega nýtt líf, að nýfætt barn sé þar af leiðandi »saklaust«*, og að alla atburði megi aðeins miða við stutta jarðvistina. Ef svo væri, yrði núverandi réttlæti að sjálfsögðu að miða orsakir, afleiðingar og endurafleiðingar við tímalengd einnar jarðvistar.

Hverfið frá þessari villu. Þá munuð þið fljótt verða þess löggengis og þess réttlætis áskynja sem er að finna í öllu sem á sér stað og sem svo oft er saknað núna!

Margur hrekkur þá við og verður óttasleginn yfir því sem þeir mega enn vænta úr endurvarpi frá fortíðinni samkvæmt lögmálum þessum.

Það eru samt óþarfa áhyggjur hjá þeim sem er alvara í góðum ásetningi, því í sjálfvirkum lögmálunum er einnig fólgin örugg vissa fyrir náð og fyrirgefningu!

En alveg óháð því; með því að taka upp einlægan, góðan ásetning þá er um leið skilgreindur sá staður eða tímapunktur þar sem samfelldri röð endurvarps skal ljúka, þar með hefst enn eitt ferli sem gríðarlegu máli skiptir:

Vegna stöðugs góðs ásetnings í öllum hugsunum og gjörðum streymir líka til baka frá kraftbrunni sömu gerðar samfelldur styrkur og hann eflir þannig hið góða í manninum sjálfum, streymir frá honum og mótar, í þessum anda, fíngert umhverfi hans sem umlykur hann eins og verndarhjúpur, á líkan hátt og lofthjúpur jarðar veitir henni vörn.

Leiti síðan illt endurvarp frá fyrri tíð þessa manns, hrekkur það á brott af hreinu umhverfi hans eða verndarhjúp og víkur þar með frá honum.

Nái það samt sem áður að þröngva sér inn fyrir þennan hjúp, verða illir geislarnir annað hvort leystir upp samstundis eða veiklaðir verulega, og þannig kemur ekki til skaðlegra áhrifa eða þá að þau verða hverfandi.

Umskiptin sem af hljótast valda því auk þess, að hinn eiginlegi innri maður, sem endurkastið miðast við og beinist að, er, vegna samfelldrar viðleitni til betri ásetnings, orðinn mun næmari og léttari, þannig að hann er ekki lengur sömu gerðar, saman borið við meiri þéttni illra eða óæðri strauma. Þessu má líkja við þráðlausar skeytasendingar, þegar viðtækið er ekki stillt á styrk senditækisins.

Eðlilegasta afleiðing þessa er, að þéttari straumarnir, vegna þess að þeir eru annarrar gerðar, ná ekki fótfestu og flæða í gegn án þess að hafa skaðvænleg áhrif, og losna fyrir tilstilli ómeðvitaðrar táknrænnar aðgerðar, en um gerð þeirra á ég eftir að ræða síðar.

Hefjist því tafarlaust handa! Skaparinn lagði allt upp í hendur ykkar í sköpunarverki sínu. Nýtið tímann! Sérhvert augnablik felur í sér glötun ykkar eða ávinning!