Hrópað á hjálpræðið

Lítum aðeins nánar á alla þá sem nú leita af einstakri ákefð að andlegu hjálpræði og bíða þess í innri upphafningu. Að eigin áliti eru þeir andlega vel undir það búnir að þekkja hann, hjálpræðið, og nema orð hans!

Þegar grannt er skoðað og í næði blasir mjög víða klofningur við. Koma Krists var til dæmis mjög mörgum mikið undrunarefni. Þeir gerðu sér ranga mynd af komu hans. Orsök þess var, að venju, rangt sjálfsmat, oflæti.

Í stað fyrri lotningar og varðveislu sjálfsagðrar gjár og skýrrar aðgreiningar frá Guði sínum er komin fram annars vegar ámátleg bón, sem óskar þess eins að þiggja en vill ekki fyrir nokkurn mun leggja eitthvað af mörkum á móti. Að »biðja« gátu þeir vel tileinkað sér, en það að »vinna«, þú skalt »vinna að sjálfum sér«, slíkt leiða þeir hjá sér.

Hins vegar telja menn sig vera svo sjálfstæða og óháða öðrum að þeim séu á eigin spýtur allir vegir færir, séu jafnvel guðlegir, leggi menn eilítið á sig.

Þeir eru einnig margir sem krefjast þess og álíta að Guð leiti til þeirra. Úr því að hann sendi eitt sinn son sinn, sýndi hann hversu mikilvægt það er honum að mannkynið nálgist hann, já, að hann þurfi að líkindum á mannkyninu að halda!

Hvert sem litið er verður ekki komið auga á neitt nema dirfsku, enga auðmýkt. Rétt sjálfsmat vantar. –

Nú ríður fyrst og fremst á að maðurinn brjóti odd af oflæti sínu svo hann nái að verða sannur maður þannig að hann geti sem slíkur hafið upprisu sína.

Nú situr hann andlega uppbelgdur í tré við rætur fjallsins í stað þess að standa traustum fótum á jörðinni. Hann á því aldrei eftir að klífa fjallið, klifri hann ekki fyrst eða falli ofan úr trénu.

Á sama tíma eru að líkindum allir þeir sem af yfirvegun lögðu leið sína fram hjá trénu undir þóttafullu augnaráði hans, komnir upp á fjallstindinn.

En hann nýtur þess að lokum, því tréð mun falla, innan skamms. En ef til vill nær maðurinn þó að hugsa sitt ráð þegar hann hrapar til jarðar úr þessari svimandi hæð. Það er þá ekki seinna vænna, hann má þá engan tíma missa.

Nú hugsar margur sem svo að þessa værukærð megi lengi viðhafa um sinn, eins og undanfarin árþúsund. Þeir sitja gildir í makindum sínum og bíða eftir máttugu hjálpræði.

En hvernig sjá þeir þetta hjálpræði fyrir sér! Þetta er mikil hryggðarmynd.

Þeir vænta þess fyrst og fremst af honum, eða orðum þetta enn skýrar, krefjast þess af honum, að hann ryðji hverjum og einum leiðina upp til ljóssins! Hann skal hafa fyrir því að reisa handa fylgjendum allra trúarbragða brýr yfir á veg sannleikans! Honum ber að gera hlutina svo skýra og auðskilda að hver og einn fái skilið þá án vandkvæða. Orðum sínum skal hann haga á þann veg að sannleiksgildi þeirra megi verða ljóst lýðum allra stétta, fyrirhafnarlaust.

En þurfi maðurinn sjálfur að leggja eitthvað af mörkum og hugsa, þá er þetta ekki hið sanna hjálparráð. Því ef hann er til þess kallaður að vísa brautina yfir á rétta veginn, þá verður hann að sjálfsögðu einnig að leggja sig fram í þágu mannanna. Það er viðfangsefni hans að sannfæra mennina, vekja þá! Kristur þurfti líka að leggja líf sitt í sölurnar.

Þeir sem svo hugsa, og þeir eru margir sem það á við um, geta vel sparað sér ómakið því þeim er líkt farið og heimskum jómfrúm, ganga »of seint á hans fund«!

Hjálpræðið vekur þá örugglega ekki, heldur lætur þá sofa áfram í mestu makindum uns hliðið lokast og þeim verður meinaður aðgangur að ljósinu, vegna þess að þeir geta ekki losað sig úr viðjum efnisheimsins á réttum tíma, en orð hjálpræðisins vísaði þeim á þann veg.

Því maðurinn er ekki jafn mikils virði og hann hefur talið sér trú um. Guð þarf hans ekki með, en hann þarfnast Guðs síns!

Úr því að mannkynið veit ekki lengur í svokallaðri þróun sinni hvað það vill í raun, mun það að lokum verða að komast að því til hvers er ætlast af því!

Tegundin maður mun streyma hjá leitandi og full gagnrýni, líkt og svo margir áður, framhjá þeim sem koma skyldi og þegar hafði verið boðaður í opinberununum.

Hvernig er hægt að ímynda sér andlegt hjálparráð á þennan hátt!

Hann á ekki eftir að veita mannkyninu nokkrar minnstu tilslakanir og mun krefjast hvarvetna þar sem þess er vænst að hann gefi!

En maður sem hugsa kann af einlægni verður þess samstundis áskynja að það er einmitt í miskunnarlausum kröfum vökullar hugsunar sem vænta má þess besta sem maðurinn, heftur af andlegri tregðu, þarfnast sér til bjargar! Það er einmitt á þennan hátt, með því að gera andlega árvekni, einlæga löngun, eigið framlag, að frumforsendu þess að orð hjálpræðisins verði skilin, sem hann greinir leikandi strax í upphafi hismið frá kjarnanum. Í þessu felst sjálfvirk athöfn, eins og finna má í guðlegu lögmálunum. Einnig að þessu leyti ræður maðurinn örlögum sínum. –

En til er enn önnur tegund manna sem telur sig öðrum fremri að fimi!

Þetta fólk hefur að sjálfsögðu gert sér allt aðra mynd af hjálpræðinu, eins og ráða má af frásögnum. Sú mynd er ekki síður afskræmd, því það sér í henni … andlegan loftfimleikamann!

Vitað er að þúsundum saman telja menn að skyggnigáfa og því um líkt séu merki um miklar framfarir, en í reynd er því ekki þannig varið. Þess kyns uppsöfnuð færni, áunnir eiginleikar, jafnvel meðfæddar gáfur, geta aldrei hafið sig upp yfir umgjörð þessa jarðlífs, tilvist þeirra takmarkast þar af leiðandi við lágreistar víddir sem aldrei geta gert tilkall til æðri sviða og eru því harla verðlítil fyrirbæri.

Er ætlunin að hjálpa mannkyninu til hærri hæða með því að benda því á, sýna því eða leyfa því að hlýða á hliðstæða hluti fíngerða efnisheimsins?

Slíkt á ekkert skylt við raunverulega upprisu andans. Og er enn síður tilgangur jarðneskra atburða! Smávægileg andleg listræn tilþrif, vissulega, og einstaklingum að skapi, en ekkert umfram það, mannkyninu verðlaus með öllu!

Að þau skuli öll óska sér hjálpræðis sem sé sömu gerðar og þau sjálf, en sé þeim þó fremri, er mjög skiljanlegt. –

En þó eru fjölmargir sem ganga enn lengra, broslega langt, í þessum efnum. Er þeim þó full alvara.

Þeim nægir til dæmis sem sönnun fyrir tilvist hjálpræðisins og gera um leið að frumskilyrði, að hann … megi ekki kvefast! Þeim sem kvefast getur er hafnað, því hann uppfyllir að þeirra mati ekki skilyrði fyrirmyndarhjálpráðs. Sá sem sterkur er verður hvað sem öðru líður, og fyrst og fremst með anda sínum, að vera algerlega yfir slík fánýt fyrirbæri hafinn.

Þetta kann ef til vill að hljóma nokkuð tilgerðarlegt og broslegt en á sér þó stoð í raunveruleikanum og er veikur endurómur ákallsins forðum: »Sértu son Guðs, bjarga nú sjálfum þér og stíg niður af krossinum«. – Þannig er hrópað enn þann dag í dag, áður en nokkurt slíkt hjálparráð er í sjónmáli!

Þið vesælu, fávísu menn! Sá sem ræktar líkama sinn svo einhliða að hann verður á stundum tilfinningalaus undan valdi andans, er fjarri því að geta talist framúrskarandi. Þeir sem að honum dást eru líkastir börnum fyrri alda, sem opinmynnt og með tárvot augu fylgdust með afskræmdum tilburðum farandskemmtikrafta og með þeim kviknaði sú brennandi löngun að geta leikið þetta eftir.

Og eins og börnin þá á þessu mjög svo jarðneska sviði, á sama stigi og ekki fremri á andlegu sviði eru mjög margir svonefndir leitendur andans eða Guðs nú á dögum!

Hugsum þetta örlítið lengra: Förufólk fyrri tíma, sem
ég ræddi um rétt áðan, þróaðist smám saman og varð að loftfimleikamönnum fjölleikahúsa, sjónleikjahúsa. Færni þeirra varð yfirþyrmandi og enn í dag virða daglega fleiri þúsund ofdekraðra einstaklinga fyrir sér slíkar kúnstir, alltaf jafn furðu lostin og haldin geðshræringarhrolli.

En hver er ávinningur þeirra? Hvað situr eftir að slíkum sýningum loknum? Og það eftir að margur loftfimleikamaður hefur stofnað lífi sínu í hættu í sumum atriðanna. Nákvæmlega ekki neitt, því jafnvel fullkomnustu atriði geta aldrei orðið annað en fjölleikahúsabrellur og sviðsatriði. Verða ekki annað en afþreying en skila mönnunum aldrei neitt áleiðis.

En loftfimleikar af þessu tagi á andlegu sviði er það sem nú er notað sem mælikvarði hjálpræðisins mikla!

Eftirlátið slíku fólki andlegu trúðana! Því verður nógu snemma ljóst til hvers slíkt leiðir! Það veit heldur ekki hvers það væntir af þessu. Það telur sér trú um eftirfarandi: Stór er sá einn sem með anda sínum hefur svo mikið vald yfir líkamanum að þessi líkami kennir sér aldrei meins!

Sérhver menntun af þessu tagi er einstrengingsleg og af einstrengingshætti leiðir aðeins það sem veiklað er og sjúkt. Með þessum hætti eflist hugurinn ekki heldur veikist aðeins líkaminn! Nauðsynlegt jafnvægi fyrir heilbrigðan samhljóm líkama og anda færist úr skorðum og endirinn verður sá að slíkur andi losnar um síðir mun fyrr úr líkamanum sem ofbeldi er beittur, líkama sem ekki getur lengur veitt andanum þann kraftmikla, heilbrigða enduróm sem jarðnesk upplifun hans þarfnast. Andinn fer því á mis við hana og hann mætir vanþroskaður yfir í handanheima. Hann þarf að lifa jarðvist sína enn á ný.

Þetta eru litlar andlegar stílæfingar, annað ekki, á kostnað jarðneska líkamans, sem í reynd á að vera andanum til stuðnings. Líkaminn er hluti af ákveðnu tímabili í þroskaferli andans. En sé dreginn úr honum allur þróttur og hann bældur getur hann ekki heldur gagnast andanum að neinu marki, því útgeislun hans er of mött til að hann geti veitt andanum allan þann kraft sem hann þarf á að halda í efnisheimum.

Vilji maður bæla niður sjúkdóm verður að beita líkamann andlegum þrýstingi ofsakæti, líkt og þegar óttinn við tannlækninn getur rutt á brott verknum hjá börnum.

Slíkt tilbúið æsingarástand þolir líkaminn ugglaust í eitt skipti, jafnvel mörgum sinnum, en ekki til langframa, án þess að bíða alvarlegt tjón.

Og framkalli eða hvetji hjálparráð til slíks ástands þá er hann ekki verður þess að teljast hjálparhella, því með þessu er gengið gegn eðlilegum lögmálum sköpunarverksins. Maðurinn í jarðtilvist sinni á að varðveita líkama sinn eins og verðmæti sem honum var trúað fyrir og skal leitast við að koma á heilbrigðum samhljómi milli anda og líkama. En ef samhljómnum er spillt með einstrengingshætti þá er það engin framför, engin upprisa, heldur róttækur hemill á möguleika hans til að leysa af hendi verkefni sín hér á jörð og í efnisheiminum öllum. Gjörvallur máttur andans, hvað störf hans í efnisheimi varðar, hverfur honum við þetta, því til þeirra starfa þarf hann, hvað sem öllu öðru líður, á krafti óbælds jarðlíkama að halda, sem er í fullkomnu sambandi við andann!

Sá sem kallaður er meistari út frá þessum atriðum er minna virði en nemandi sem ekki þekkir viðfangsefni mannsandans og nauðsynleg þroskaferli hans! Hann er meira að segja skaðvaldur andans.

Þeim verður nógu snemma sárlega ljóst hve heimsk þau eru.

En sérhver falslausnari verður að fara í gegnum bitra reynslu! Frami hans í handanheimum getur þá fyrst hafist, þegar sá síðasti þeirra sem hann villti um fyrir eða leiddi af leið með andlegum bellibrögðum, hefur öðlast réttan skilning. Svo lengi sem bækur hans, rit hans hafa enn áhrif hér á jörð er honum haldið föstum fyrir handan, jafnvel þótt hann hafi þar á sama tíma öðlast betri skilning.

Hver sá sem hvetur til dulrænnar kennslu gefur mönnum grjót í brauðs stað og sýnir með því að hann ber ekki einu sinni skynbragð á það sem raunverulega fer fram í handanheimum, enn síður á gangverk alls heimsins!