Fyrsta skrefið

Látið orð mín lifna í brjóstum ykkar, því aðeins á þann hátt færa þau ykkur þau not sem þið þarfnist til að hefja andann upp í bjartar hæðir eilífra garða Guðs.

Það nægir ekki að vita af orðinu! Og þó svo að þið gætuð mælt af munni fram allan boðskap minn orð fyrir orð í fróðleiksskyni fyrir sjálf ykkur og meðbræður … hlytist ekki af því nokkurt gagn ef þið gjörið ekki samkvæmt þeim, hugsið ekki samkvæmt orðum mínum og hagið ekki gjörvöllu jarðnesku lífi ykkar samkvæmt þeim sem sjálfsögðum hlut sem ykkur væri í blóð borinn, óaðskiljanlegum frá ykkur. Því aðeins með því að fylgja boðskap mínum getið þið ausið af þeim eilífu gildum sem þar er að finna ykkur til handa.

»Af verkum þeirra skuluð þér þekkja þá!«. Þessi tilvitnun í orð Krists skal vera öllum lesendum mínum æðsta setning boðskapar míns! Af verkum þeirra merkir af áhrifum þeirra, það er að segja hugsunum þeirra, daglegum athöfnum þeirra í jarðlífi! Gjörðum tengist einnig það sem sagt er, ekki aðeins athafnir ykkar; því mælt mál er athöfn, en áhrif þess hafið þið hingað til vanmetið. Meira að segja ber að telja hugsanirnar með.

Fólki er tamt að segja að hugsanir séu »öllu óháðar«. Með því hyggst fólk gefa í skyn að það verði ekki látið standa reikningsskil hugsana sinna því þær séu á þeim stalli sem mannshöndin nái ekki til.

Þar af leiðandi leikur fólk sér of gáleysislega að hugsunum, eða réttar sagt, leikur fólk sér í hugarheimi. Því miður oft mjög hættulegur leikur, glæfraleg ranghugmynd um að það geti stigið út úr honum óáreitt.

Þar skjátlast þeim hins vegar, því hugsanir eru einnig hluti grófgerða heimsins og verða hvað sem öllu öðru líður að hljóta þar aflausn áður en andinn getur losnað og frelsast, eftir að hafa losað um tengslin við jarðlíkam­ann.

Leitist því í sífellu, í anda boðskapar míns, í hugsunum ykkar við að hefja ykkur upp, þannig að þið leitið aðeins þess sem háleitt er og hafnið ekki niðri á stalli lágkúrunnar vegna þess að þið teljið ykkur trú um að þar sjái ykkur enginn né heyri.

Hugsanir, orð og sýnilegar gjörðir eru allt hluti af efnisheimi hins grófgerða í þessu sköpunarverki!

Hugsanirnar hafa áhrif í fína hluta hins grófgerða heims, orðin í miðhluta hans og sýnilegar athafnir taka á sig mynd í grófasta, það er að segja þéttasta hluta hans. Grófkenndar eru þessar þrjár tegundir gjörða ykkar!

En form þeirra allra eru náskyld, áhrif þeirra fléttast saman. Hvaða þýðingu það hefur fyrir ykkur, hversu áhrifaríkt það oft getur orðið á vegferð ykkar, hafið þið við fyrstu sýn engar forsendur til að meta.

Í því felst ekkert annað en það, að jafnvel hugsun, sem lifir áfram sínu sjálfstæða lífi og í samræmi við eðli sitt, getur haft styrkjandi áhrif á sams konar fyrirbæri í miðhluta efnisheimsins og leitt þannig af sér kraftmeiri form, sem á hinn bóginn, sem rökrétt afleiðing, geta, á þessu kraftaukna formi, ummyndast í sýnileg starfandi form í grófasta efnisheiminum, án þess að þið virðist eiga þar beinan hlut að máli.

Það er skelfilegt til þessa að vita, þegar maður þekkir glannaskap og áhyggjuleysi hugsanagangs jarðarbúa.

Þið eigið hins vegar hlut að máli í margri athöfn, án þess að gera ykkur það ljóst, sem einhver meðbræðra ykkar framkvæmir, vegna þess einfaldlega að hann tók á móti þeirri kraftaukningu sem ég lýsti fyrir ykkur rétt áðan, og sem varð þess valdandi að hann reyndist geta hrundið í framkvæmd, í grófgerða efnisheiminum, einhverju því sem hann hafði fram að þessu aðeins gælt við í formi hugsana eingöngu.

Þannig stendur margur jarðarbúinn oft fullur vanþóknunar andspænis einhverjum verknaði einhvers meðbræðra sinna, í foraktan og vandlætingu, en er hann þó meðábyrgur gagnvart eilífum lögmálum Guðs! Það kann að vera að þarna sé um gjörókunnugan mann að ræða og verknað sem hann hefði sjálfur aldrei framið í grófgerða efnisheiminum.

Setjið ykkur fyrir augu framvindu af þessu tagi, og þá fyrst munuð þið skilja það sem ég hrópa til ykkar í boðskap mínum: »Haldið hreinni uppsprettu hugsana ykkar, þá verðið þið friðflytjendur og hamingjusöm!«

Og þegar þið hafið öðlast nægan styrk við eigin hreinsun þá mun margvíslegum afbrotum á jörðu fækka, sem margir áttu hlutdeild í án þess að vera sér þess meðvitaðir.

Tími og staður slíkra gjörða þar sem þið voruð meðsek skipta engu máli í því sambandi. Jafnvel þó svo að atburðurinn hafi átt sér stað hinum megin á hnettinum miðað við það hvar þið dveljið, á stað þar sem þið hafið aldrei stigið fæti, sem þið vissuð ekki að væri til. Styrking, kraftaukning fyrir tilstilli hugsanaleikja ykkar koma þar fram, þar sem hugsanirnar hitta fyrir fyrirbæri sömu gerðar, óháð fjarlægð, þjóð og landi.

Þannig geta hatursfullar hugsanir og öfund, þegar frá líður, hellst yfir einstaklinga, hópa eða heilu þjóðflokkana og þjóðir, hvarvetna þar sem þær hitta fyrir hugsanir sömu gerðar, þvingað þau til aðgerða sem, þar sem þeim er hrundið í framkvæmd, geta verið allt annarrar ásýndar en þær sem til urðu þegar þær voru framkvæmdar sem afleiðing ykkar eigin hugarfimleika.

Afleiðingarnar kunna að birtast á þann hátt sem samræmist tilfinningum gerandans á þeirri stundu þegar athöfnin er framin. Þannig kunnið þið að hafa átt hlutdeild í gjörðum sem voru hryllilegri en svo að þið hefðuð nokkurn tíma getað gert ykkur það í hugarlund en eigið samt hlut að máli og hluti afleiðinganna hlýtur að íþyngja anda ykkar, hlýtur að loða við hann sem lóð, þegar hann leysir sig frá líkamanum.

Á hinn bóginn getið þið líka lagt enn meira af mörkum til friðar og hamingju mannskyns, átt, með hreinum, glaðbeittum hugsunum, hlutdeild í athöfnum sem leiða til þroska vandalausra.

Til baka flæðir að sjálfsögðu blessun
ykkur til handa og þið vitið ekki hverju hún er að þakka.

Ef þið bara gætuð séð hversu óhagganlega réttlátur alheilagur Guð birtist í sjálfstæðum lögmálum sköpunarverksins í þágu hverrar einustu hugsunar sem með ykkur kviknar, þá mynduð þið leggja allt ykkar af mörkum til að varðveita hreinleika hugsana ykkar!

Þá loksins eruð þið orðin þeir sem skaparinn af náð sinni býðst til að leiða í sannleikann um verk sitt, sem veitir eilíft líf og eruð honum til aðstoðar í sköpunarverkinu, þess verðug að vera aðnjótandi náðarinnar miklu sem mannsandanum er ætluð, í því skyni að skila henni áfram umbreyttri til þeirra skepna sem eru aðeins færar um að taka á móti henni á þessu umbreytta formi í gegnum manninn, og sem í dag er á glæpsamlegan hátt haldið fjarri henni fyrir tilstilli hnignunar mannsandans, eftir að hafa orðið til á tímum betra og hreinna mannkyns.

Þar með eruð þið þá búin að glæða lífi eina setningu boðskapar míns til ykkar hér á jörð!

Hún er erfiðust fyrir ykkur og gerir það sem á eftir fer mun auðsóttara og lætur kraftaverk verða jarðneskt sýnileg, áþreifanleg fyrir framan ykkur. –

Þegar þið verðið komin þetta langt á veg bíður ykkar hins vegar önnur hætta sem leiðir af brengluðum hugsunarhætti mannsins: Þið munuð þar koma auga á vald sem ykkur mun fýsa að móta eftir eigin geðþótta til að þjóna hinum ýmsu gæluverkefnum, sem eru samansett úr eiginhagsmunum!

Við þessari hættu vil ég vara ykkur strax í dag, því þessi hætta getur gleypt ykkur, drekkt ykkur, eftir að vera komin á rétta leið.

Varist að knýja hreinleika hugsananna fram með valdi, því þannig væruð þið þegar byrjuð að beina honum inn á ákveðnar brautir og fyrirhöfn ykkar yrði að sjónhverfingum, myndi aðeins verða tilbúningur og aldrei ná þeim áhrifum sem hann á að hafa. Öll fyrirhöfn ykkar myndi valda tjóni en ekki verða til gagns, vegna þess að einlægni frjálsra tilfinninga myndi skorta. Þetta væri enn einu sinni áhrif frá skilningsgáfunni, en aldrei afsprengi andans sem í ykkur býr! Við þessu vil ég vara ykkur.

Minnist orða minna úr boðskapnum þar sem segir að allur mikilfengleiki geti aðeins búið í einfaldleikanum, því sannur mikilfengleiki er einfaldur! Einfaldleikann sem ég hef í huga eigið þið ef til vill hægara með að skilja ef þið notið í staðinn, tímabundið, mennsk-jarðneska hugtakið látleysi. Það er kannski nærtækara skilningsgetu ykkar og þið væruð á réttri leið.

Það er ekki viljinn til að hugsa sem ljær hugsunum ykkar þann hreinleika sem ég á við, heldur verður látlaus og ótakmarkaður vilji að spretta af tilfinningum ykkar, ekki luktur inni í orði sem getur ekki nema að takmörkuðu leyti tjáð merkingu hugtaks. Það má ekki verða, heldur allt­umlykjandi sókn til hins góða sem er þess megnugt að lykjast um uppruna hugsana ykkar, smýgur inn í þær, áður en þær taka á sig form, er það rétta sem þið þurfið á að halda.

Þetta er ekki erfitt, meira að segja mun auðveldara en hinar tilraunirnar, svo fremi sem látleysi fær að ráða, þar sem dramb skilningshyggju eigin kunnáttu og eigin krafts fær ekki þrifist. Hreinsið burt hugsanirnar og látið þrána eftir hinu æðra, góða í ykkur ráða ríkjum, þá eruð þið komin með grundvöllinn að þeirri hugsun sem á rót sína í löngun andans sem í ykkur býr, og það sem af því sprettur getið þið róleg látið skilningsgáfuna um að framkvæma í þéttasta hluta hins grófgerða heims. Það sem rangt er nær
aldrei að myndast.

Varpið frá ykkur öllu kvalræði af völdum hugsana, treystið anda ykkar sem finna mun rétta veginn ef þið hindrið ekki framgöngu hans. Verðið frjáls í anda merkir ekkert annað en látið andann ráða för! Hann getur ekki annað en leitað til hæða, því eðli sínu samkvæmt dregst hann óhjákvæmilega til hærri hæða. Fram að þessu hélduð þið aftur af honum, þannig að hann fékk ekki notið sín, því þar með bunduð þið niður vængi hans og flug.

Grunninn að nýju mannkyni, sem þið hvorki getið né megið leiða hjá ykkur, er að finna í þessari einu setningu: Haldið hreinni uppsprettu hugsana ykkar!

Þetta þarf að verða fyrsta verk mannsins! Þetta er fyrsta verkefnið sem gerir hann að þeim sem hann hlýtur að verða. Fyrirmynd allra sem þyrstir í ljós og sannleika, sem vilja þakklátir þjóna skaparanum með öllu líferni sínu. Sá sem það gerir þarf ekki frekari leiðsagnar við. Hann er eins og hann á að vera og veitir án fyrirvara viðtöku þeirri hjálp sem bíður hans í sköpunarverkinu og flytur hann hærra, óaflátanlega.