Framfarir

Flækið ykkur ekki í neti, þið þekkingarleitendur, heldur öðlist sýn!

Fyrir tilverknað eilífs lögmáls hvílir á ykkur óhagganleg þrá eftir yfirbót, þrá sem þið getið aldrei varpað yfir á aðra. Það sem þið kallið yfir ykkur sjálf með hugsunum ykkar, orðum og gjörðum, úr því megnar enginn annar að greiða nema þið sjálf! Hafið þetta hugfast, því annars væri guðlegt réttlæti aðeins orðin tóm og allt annað hryndi til grunna ásamt því.

Gerið ykkur því frjáls! Frestið því ekki eitt andartak að setja þessari þrá eftir yfirbót ákveðið markmið! Heiðarleg löngun til að láta af sér leiða það sem gott er og betra, sem verður enn máttugri í gegnum einlæga bæn, færir ykkur endurlausnina!

Án þess að vilja af einurð það sem gott er getur engin yfirbót orðið. Lágkúran viðheldur þá sjálfri sér í sífellu og kallar þannig óþreytandi á nýja yfirbót, endalaust, þannig að það sem í reynd er í stöðugri endurnýjun birtist ykkur sem einn og samur löstur eða þjáning! Samt er það óslitin endalaus keðja, sem binst án afláts, áður en það sem á undan gekk hefur náð að losna.

Þá kemur aldrei til endurlausnar, vegna þess að sífellt er krafist yfirbótar. Líkt og keðja sem fjötrar ykkur við jörðu. Og það er mjög hætt við að þið sökkvið enn dýpra. Herðið því loks upp hugann, í átt til fróms ásetnings, þið sem enn dveljið í hérheimum, eða með ykkar eigin orðum, sem eruð nú þegar í handanheimum! Með stanslausum frómum ásetningi hlýtur allri yfirbót að ljúka, því sá sem gott vill og gott aðhefst nærir ekki lengur áframhaldandi yfirbót. Og þannig kemst frelsunin á, endurlausnin, sem ein heimilar þróun í átt til ljóssins. Hlýðið á varnaðarorðin ! Þið eigið ekki annarra leiða völ! Enginn!

En á sama tíma öðlast sérhver maður þá fullvissu að það getur aldrei orðið of seint. Fyrir stakar gjörðir vissulega, fyrir þær þurfið þið að gera iðrun og yfirbót, en á þeirri stundu er þið hefjið fyrir alvöru gönguna til góðs markið þið endalok yfirbóta ykkar, sannið þið til, þessi endalok hljóta að koma og þar með hefst þroskaferli ykkar! Þá getið þið glaðbeitt hafist handa við að vinda ofan af allri yfirbót. Það sem hendir ykkur upp frá því gerist ykkur til heilla, færir ykkur nær stundu endurlausnarinnar, frelsunarinnar.

Skiljið þið nú hvers virði það er þegar ég ræð ykkur til þess að iðka af öllu afli fróman ásetning, hreina hugsun? Hverfa ekki frá því heldur ríghalda ykkur í það verkefni af allri þrá, öllum mætti! Það veitir ykkur frama! Það breytir ykkur og því sem umhverfis ykkur er!

Gætið að því að hver hringferð jarðarinnar er stuttur skóli, að þótt þið afklæðist holdinu er samt ekki öllu lokið fyrir ykkur. Þið munuð ávallt lifa eða ávallt deyja! Stöðugt njóta hamingju eða þjást stöðugt!

Hver sá sem heldur því fram að með jarðneskri útför hans sé allt upp gert, megi sá hverfa á brott og halda leiðar sinnar því með þessum orðum kastar hann aðeins ryki í eigin augu. Hann … hlýtur síðan að hrylla við sannleikanum, standa frammi fyrir honum og hefja kvalagöngu sína! Hans sanna sjálf, berskjaldað eftir brotthvarf líkamans, sem með efnisþéttni sinni skýldi honum eins og varnarveggur, á síðan eftir að laðast að, verða umlukið af og tengjast því sem er sömu gerðar.

Að rífa sig upp og stefna í átt til þess sem betra er og sem frelsað gæti og hafið hann á æðra stig, á eftir að reynast honum þungbærara, ókleift um langa hríð, því hann er í einu og öllu bundinn því sem ekki býr yfir neinum slíkum hugmyndum ljóssins, sem gætu vakið hann, stutt hann. Hann verður að líða tvöfaldar þjáningar vegna alls þess sem hann hefur bakað sér.

Af þessum sökum eru allar framfarir þá miklum mun erfiðari en í holdi og blóði, þar sem gott og illt ganga hönd í hönd, sem aðeins er gerlegt í skjóli jarðnesks líkamans, vegna þess að … þessi jarðvist er skóli þar sem sérhvert »ég« á kost á því að þroskast samkvæmt eigin frjálsa vilja sínum.

Herðið því upp hugann! Ávextir hugans falla að fótum ykkar, hér ellegar þar, það er ykkar að njóta þeirra! Þessa staðreynd fær enginn
maður umflúið!

Hvað gagnast það ykkur að hafast að líkt og strútur sem felmtri sleginn reynir að stinga höfðinu í sandinn frammi fyrir þessum sannleika? Horfist djörf í augu við staðreyndirnar! Þannig vinnið þið ykkur í haginn, því hér má taka skjótum framförum.

Hefjist handa! En verið ykkur þess þó meðvituð að allt það sem áður var þarf að gera upp. Væntið þess því ekki, eins og svo margir dárar gera, að hamingjan falli ykkur síðan fyrirhafnarlaust í skaut. Vera má að margur ykkur eigi ógnarmörg atvik enn óuppgerð. En sá sem guggnar vegna þessa bakar aðeins sjálfum sér tjón, því honum verður ekki hlíft, getur ekki vikist undan þeim. Að hika gerir allt eingöngu erfiðara viðfangs, jafnvel ógerlegt um langa hríð.

Það ætti að vera honum hvatning til að hika ekki stundinni lengur, vegna þess að líf hans hefst ekki fyrr en með fyrsta skrefinu! Vel sé þeim sem herðir nú upp hugann, það hættir að íþyngja honum, hægt og örugglega. Hann getur brotist áfram stórum skrefum, fellt um koll og sigrað síðustu hindranirnar með gleðiraust og þakklæti, því hann verður frjáls!

Steinunum sem athafnir hans til þessa hafa hlaðið upp líkt og vegg sem hlaut að hindra allar framfarir, verður að vísu ekki rutt úr vegi hans, heldur verður þeim þvert á móti komið vandlega fyrir í braut hans svo hann verði þeirra var og sigrist á þeim, vegna þess að hann verður að bæta fyrir allar misgjörðir. En brátt sér hann fullur undrunar og aðdáunar ástina sem umlykur hann um leið og hann sýnir merki um góðan vilja.

Honum verður gert auðvelt fyrir á göngunni um þennan veg eins og þegar móðir styður barn sem tekur fyrstu skref sín. Ef til eru einhverjir þeir hlutir úr fyrra líferni hans sem honum stóð ógn af innst inni og helst kaus að láta kyrra liggja … hann verður látinn standa óvænt beint andspænis þeim! Það er hans að taka ákvörðun, aðhafast. Atburðarásin þvingar hann til þess. Þori hann þá að stíga fyrsta skrefið og trúi hann því staðfastlega að góður ásetningur sigri að lokum, þá leysist örlagahnúturinn, hann gengur í gegn og er þá orðinn laus undan honum.

En hann er vart búinn að gjalda þessa skuld þegar sú næsta birtist honum á einhvern hátt og krefst þess sömuleiðis að verða greidd.

Þannig slitna af honum fjötrarnir einn af öðrum, sem hlutu að þrengja að honum og hefta hann. Honum léttir svo mjög! Og tilfinning léttleikans, sem margur á meðal ykkar hefur ugglaust fundið fyrir, er engin blekking heldur afleiðing staðreyndar. Andinn sem nú er orðinn frjáls undan okinu verður léttari og skýst á loft samkvæmt lögmáli andlegs þyngdarafls, til þess sviðs sem hann tilheyrir nú, léttleika sínum samkvæmt.

Þannig hlýtur stefnan stöðugt að vera áfram upp á við, til ljóssins sem að er stefnt. Illur ásetningur þvingar andann niður og þyngir hann, en það sem gott er hefur hann upp.

Jesús benti ykkur líka þá þegar á beinu brautina sem leiðir óumflýjanlega að settu marki, því í þessum einföldu orðum býr djúpur sannleikur: »Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig!«

Þar með veitti hann lykilinn að frelsinu, framförunum! Vegna þess að ósnertanlegt telst: Það sem þið gerið náunga ykkar, gerið þið í reynd eingöngu fyrir ykkur sjálf! Aðeins fyrir ykkur, því að samkvæmt lögmálunum eilífu endurkastast allt skilyrðislaust á ykkur aftur, gott eða illt, hvort heldur strax hér eða þar. Það kemur! Þess vegna er þar með búið að vísa ykkur einföldustu leiðina að því hvernig þið skuluð stíga fyrsta skrefið í átt að góðum ásetningi.

Með eðli ykkar skuluð þið sýna náunga ykkar gjafmildi, með fasi ykkar! Hreint ekki endilega með fé og munum. Því þar með væri efnalítið fólk útilokað frá því að gefa. Og í þessu eðli, í því að »gefa af ykkur« í samskiptum ykkar við náungann, í tilliti, virðingu sem þið auðsýnið honum af eigin hvötum, er fólgin sú »ást« sem Jesús nefnir, í henni er einnig fólgin hjálpin sem þið veitið náunga ykkar, því í henni verður hann fær um að breyta sér og ná æðri hæðum vegna þess að í henni nær hann að styrkjast.

En endurskinið þaðan hefur ykkur skjótt upp í víxlverkun sinni. Hún færir ykkur stöðugt nýjan kraft. Þá getið þið þotið hraðbyri til ljóssins …

Aumu dárar, sem enn getið spurt: »Hvað færir það mér, ef ég yfirgef svo margt sem mér er tamt, og breyti mér?«

Eru þetta viðskipti sem ljúka skal? Og þó svo að ávinningurinn yrði ekki annar en að göfga þig sem mannveru, þá væri það strax nægjanleg umbun. En ávinningurinn er óendanlega miklu meiri! Ég endurtek: Með því að taka upp góðan ásetning afmarkar hver og einn um leið endalok yfirbóta sinna sem hann þarf að rækja og mun aldrei geta vikið sér undan. Þá kvöð getur enginn tekið á sig í hans stað.

Með ákvörðun sinni sér hann þar af leiðandi fyrir endann á innri þörf sinni fyrir að gera yfirbót. Það eru verðmæti sem eru meiri en allir fjársjóðir þessa heims samanlagðir. Á þennan hátt brýst hann undan hlekkjum þrælsins, hlekkjum sem hann leggur stöðugt á sig sjálfur. Látið því af hinum spillandi svefni. Leyfið ykkur loksins að vakna!

Burtu með vímuna sem glepur ykkur sýn og telur ykkur trú um að endur­lausn fyrir tilstilli frelsarans sé trygging fyrir því að þið getið alla ævidaga helgað ykkur áhyggjulaust »eigin ágæti« og verðið á endanum auk þess trúuð, og hverfið síðan héðan af jörðinni í trúnni á frelsarann og verk hans! Þið eruð flón að búast við svo fátæklegu og gloppóttu verki af hálfu Guðsandans! Í því fælist beinlínis að leggja rækt við hið illa! Hafið hugfast, gerið ykkur frjáls!