Barnseðlið

Orðið »barnslegur« nota margir í kæruleysi sínu og óyfirveguðum talsmáta í flestum tilvikum rangt.

Vegna sljóleika andans ná þeir hvorki að skilja né skynja til hlítar dýpri merkingu þess. En sá sem hefur ekki á valdi sínu allt inntak þess mun heldur aldrei getað notað það rétt.

Er það þó barnseðlið sem er manninum brú yfir til bjartari hæða, þangað sem sérhver mannsandi kemst til þroska og þeirrar fullkomnunar sem eilíf tilvist hans í sköpunarverkinu krefst, en það er hús Guðs föður, sem hann færir mönnunum, ef … þeir sem gestir hegða sér vel í þeim húsakynnum. Gestir sem ekki valda spjöllum á því rými sem þeim náðarsamlegast er veitt afnot af og með krásum hlöðnu matborði.

Maðurinn er hins vegar nú víðs fjarri því barnseðli sem honum er svo nauðsynlegt!

En án þess getur hann ekki hlúð að anda sínum á nokkurn hátt. Andinn verður að vera gæddur barnseðli, því hann er og verður barn sköpunarverksins, jafnvel þó svo hann nái fullum þroska.

Barn sköpunarverksins! Í því liggur hin dýpri merking, því hann verður að þroskast sem barn Guðs. Hvort hann nái nokkurn tíma þeim þroska ræðst algerlega af því þekkingarstigi sem hann er reiðubúinn að tileinka sér á vegferð sinni gegnum alla efnisheima.

Og hversu reiðubúinn hann er verður að koma fram í athöfnum hans. Í andlegum víddum er vilji um leið einnig athöfn. Vilji og athöfn eru þar ævinlega eitt og hið sama. En þetta á aðeins við í andlegum víddum, ekki í efnisheimum. Því þéttari, þyngri sem efnisheimurinn er, þeim mun fjarlægari er gjörðin viljanum.

Að þéttleiki verki heftandi má auðveldlega sjá í fari hljóðsins en það verður að ryðja sér braut í gegnum efnisheiminn sem heftir för þess, allt eftir eðli þéttleikans. Þetta verður þegar ljóst á stuttum vegalengdum.

Þegar maður heggur niður við eða rekur nagla í bjálka má greinilega sjá höggið ríða, en högghljóðið berst ekki fyrr en nokkrum sekúndum síðar. Þetta er svo áberandi að hver einasti maður ætti að hafa orðið þessa var nokkrum sinnum.

Svipað á sér stað, aðeins mun afdrifaríkara, hjá manninum á jörðu, varðandi vilja og gjörðir. Viljinn bregst skjótt við í andanum, í andanum breytist hann samstundis í athöfn. En til að tjá viljann á sýnilegan hátt í grófgerða heiminum þarf hann auk þess á líkama hins grófgerða heims að halda. Það er aðeins undir áreiti sem líkaminn bregst, að fáum sekúndum liðnum, við hvatningu viljans. Þá er slökkt á hægvirkri starfsemi framheilans, sem annars gegnir því hlutverki að miðla boðum viljans og hrinda af stað athöfn líkamans.

Hin eiginlega leið krefst öllu lengri tíma. Stundum verður athöfnin aðeins óskýr eða alls engin vegna þess að á lengri leiðinni dofnuðu boð viljans eða bárust ekki alla leið vegna heilabrota skilningsgáfunnar.

Í þessu samhengi langar mig að skjóta inn athugasemd, sem strangt til tekið á ekki heima í frásögninni hér á þessum stað, um augljós áhrif lögmáls sköpunarverksins um aðdráttarafl sömu tegundar sem oft verður vart í athöfnum mannsins, þó svo að þeim sé sjaldan gaumur gefinn.

Það var jarðneska skilningsgáfan sem setti fram mennsk-jarðnesku lögmálin og hún knýr þau einnig áfram. Þess vegna hljóta áform sem byggja á skilningi, það er að segja ígrundaðar athafnir, sem slík þyngri refsingu og eru dæmd harðar en athafnir sem framkvæmdar eru í geðshræringu, það er að segja án umhugsunar. Þeim síðastnefndu er yfirleitt fundið eitthvað til málsbóta.

Í reynd eru hér á ferðinni, þó svo að maðurinn geri sér ekki grein fyrir þeim, vensl gegnum sams konar verk skilningsgáfunnar samkvæmt lögmáli sköpunarverksins sem gildir um alla þá sem lúta skilyrðislaust valdi skilningsgáfunnar. Þeim er þetta mjög skiljanlegt.

Ómeðvitað færist stór hluti yfirbótarinnar sem unnin er í geðshræringu yfir á andlega sviðið. Löggjafinn og dómarar gera sér enga grein fyrir þessu vegna þess að þeir ganga út frá allt öðrum grundvallarforsendum, hreinum grundvallarsetningum skilningsgáfunnar. Við nánari umhugsun og kynni af störfum lögmála sköpunarverksins birtist þetta allt í nýju og öðru ljósi.

Þrátt fyrir það starfa lifandi lögmál Guðs í sköpunarverkinu einnig sjálfstætt og fyllilega á eigin forsendum í öðrum jarðneskum úrskurðum og dómum, óháð jarðnesk-mennskum lögmálum og hugtökum. Það kemur að líkindum ekki nokkrum alvarlega þenkjandi manni til hugar að álíta að raunveruleg sök hafi, eins og hún er skilgreind og fyrir hana refsað samkvæmt skilningshugtökum mannanna, þar með verið afgreidd að fullu frammi fyrir og samkvæmt lögmálum Guðs!

Þetta eru frá alda öðli allt að því tveir ólíkir, aðskildir heimar vegna gjörða og hugsana mannsins, þó svo að þeir ættu að vera einn og sami heimurinn þar sem aðeins ríktu lögmál Guðs.

Jarðnesk refsing eins og að ofan greinir getur því aðeins veitt aflausn að lögin og refsingin séu í einu og öllu í samræmi við lögmál sköpunarverks Guðs.

Til er tvenns konar geðshræring. Annars vegar sú sem áður hefur komið fram og eiginlega ætti að heita eðlishvöt, og hins vegar geðshræring sem brýst fram í framheilanum, það er að segja ekki í andanaum, og tilheyrir skilningsgáfunni. Hún er óyfirveguð, en henni ber ekki að njóta sömu málsbóta og athafnir framkvæmdar af eðlishvöt.

En að greina með réttu þar á milli af sanngirni er ekki á færi nema þeirra manna sem þekkja öll lögmál Guðs í sköpunarverkinu og er kunnugt um áhrif þeirra. Slíkt verður að bíða þess tíma þegar geðþóttaathafnir hafa líka lagst af meðal mannanna, en það krefst þess að þeir hafi náð andlegum þroska sem veldur því að þeir bærist í öllum orðum sínum og æði eingöngu í takt við guðleg lögmálin.

Þessi útúrdúr á aðeins að vekja til umhugsunar, hann átti ekki heima í megintilgangi erindisins.

Rétt er aðeins að minnast þess að vilji
og gjörðir eru eitt og hið sama á andlega sviðinu, en aðskilin í efnisheimum, allt eftir eðli efnisins. Því sagði Jesús forðum við mennina: »Andinn er reiðubúinn, en holdið er veikt!«. Holdið, í þessu sambandi grófgerður efnisheimur líkamans, snýr ekki í gjörð öllu því sem var vilji og gjörð í andanum.

Hins vegar gæti andinn, sveipaður grófgerðri skikkju jarðtilvistarinnar, þvingað vilja sinn í grófgerðan búning athafna, væri hann ekki of sljór til þess. Hann getur ekki gert líkamann ábyrgan fyrir þessum sljóleika því sérhver andi fékk líkamann aðeins afhentan sem verkfæri sem honum ber að læra að stjórna í þeim tilgangi að nýta hann rétt. –

Andinn er þar með barn sköpunarverksins. Og þar verður hann að vera barnslegur, ætli hann að rækja það hlutverk sem honum er ætlað í sköpunarverkinu. Dramb skilningsgáfunnar gerði það að verkum að hún fjarlægðist barnseðlið vegna þess að hún »skildi« ekki hvað í því felst í raun og veru. Þannig glataði hún þeirri fótfestu sem hún hafði í sköpunarverkinu sem hlýtur nú að hrekja hana á brott sem aðskotahlut, friðspilli og meinvætt, til þess að geta sjálft lifað áfram heilbrigt og heilt.

Og því mun koma að því að mannkynið grafi sína eigin gröf, með röngum hugsunum og gjörðum. –

Mikið er það sérkennilegt að hver sá maður sem loksins vill njóta til fulls áhrifa jólahátíðarinnar skuli fyrst þurfa að reyna að setja sig í andlegar stellingar barnseðlisins!

Þetta er augljóst merki þess að hann, sem fullorðinn maður, er ófær um að upplifa jólahátíðina á tilfinningalegum nótum. Augljós sönnun þess að hann hefur glatað einhverju sem hann átti sem barn! Hvers vegna vekur það manninn ekki til umhugsunar!

Enn á ný er það sljóleiki andans sem aftrar þeim frá því að fást við hlutina af einlægni. »Það er fyrir börn«, hugsa þeir með sér »og fullorðnir mega ekki vera að því! Þeir hafa um alvarlegri mál að hugsa.«

Alvarlegri! Alvarlegri merkir hjá þeim ekkert annað en að eltast við
veraldleg gæði eða starfsemi skilningsgáfunnar! Skilningsgáfan er fljót að hrekja á brott minningar, til að raska ekki forgangsröðuninni, skyldi tilfinningum einhvern tíma verða gefið svigrúm!

Innan um allar þessa að því er virðist smávægilegu staðreyndir væri hægt að koma auga á stóru fyrirbærin, ef skilningsgáfan myndi gefa tóm til þess. En hún hefur yfirhöndina og ver þá stöðu sína með öllum tiltækum ráðum og brögðum. Það er að segja, ekki hún, heldur í raun og sannleika verst það sem beitir henni sem vopni og dylst að baki henni: Myrkrið!

Það vill ekki láta koma auga á ljósið í minningunum. Og hversu mjög andinn þráir að finna ljósið, öðlast frá því nýjan kraft, má ráða af því að með minningunum um jól barnæskunnar vaknar óljós, allt að því sár löngun sem megnar að láta margan manninn klökkna um stund.

Þessi klökka stund gæti orðið jarðvegur vakningar, yrði hún nýtt, strax og af fullum krafti! En því miður gefa sig fullorðnir á þessari stundu aðeins dagdraumum á vald og sólunda þannig til einskis þeim krafti sem gæti hafið þá upp. Og í dagdraumunum rennur þeim tækifærið úr greipum án þess að koma að gagni eða nýtast á nokkurn hátt.

Jafnvel þó svo að margur maðurinn felli þá nokkur tár, fyrirverður hann sig fyrir þau, reynir að dylja þau, herðir upp hugann með líkamsrykk sem gefur oft til kynna ómeðvitaða þvermóðsku.

Hvað þetta gæti kennt manninum margt. Það er ekki að ófyrirsynju að inn í endurminningar æskuáranna skuli blandast vottur af angurværð. Þetta er ómeðvituð endurupplifun þess að eitthvað sé glatað sem skilur eftir tóm sem gerir manni ókleyft að upplifa lengur á sama hátt og barn.

En þið hafið öruggleg oft orðið þess vör hversu kærkominn og hrífandi sérhver maður getur verið með hljóðri nærveru sinni einni saman þegar úr augum hans ljómar á stundum barnslegt leiftur.

Fullorðnir mega ekki gleyma því að það er ekki það sama að vera barnslegur og barnalegur. Þið vitið samt ekki hvert barnseðlið sækir eðli sitt, hvað það í rauninn er! Og hvers vegna Jesús sagði: »Verðið eins og börn!«

Til þess að komast að því hvað það er að vera barnslegur verðið þið fyrst að gera ykkur grein fyrir því að barnseðlið er hreint ekki bundið við barnið sem slíkt. Þið þekkið áreiðanlega sjálf börn sem vantar hið sanna fagra barnseðli! Það eru sem sagt til börn án barnseðlis! Illgjarnt barn mun aldrei verða barnslegt, ekkert frekar en óþekkt, eða öllu heldur óuppalið barn!

Af því leiðir augljóslega að barnseðli og barn eru sitt hvort fyrirbærið.

Það sem á jörðu er nefnt barnslegt er angi af áhrifum hreinleikans! Hreinleikans í æðri, ekki aðeins jarðnesk-mannlegum skilningi. Maðurinn sem lifir í geislaljóma guðlegs hreinleika, sem gefur geislum hreinleikans rúm innra með sér, hefur þar með einnig öðlast barnseðlið, hvort heldur sem barn eða sem fullorðinn.

Barnseðlið er árangur innri hreinleika eða merki þess að slíkur maður hafi helgað sig hreinleikanum, þjóni honum. Allt eru þetta eingöngu mismunandi tjáningarform, en í reynd alltaf sami hluturinn.

Það er því aðeins barn sem í eðli sínu er hreint sem getur virkað barnslegt og fullorðinn sem elur með sér hreinleika. Þess vegna er hann uppörv­andi og fjörgandi og vekur traust!

Og þar sem sannur hreinleiki er, þar getur líka sönn ást haldið innreið sína, því ást Guðs verkar í geisla hreinleikans. Geisli hreinleikans er vegur hans, sem hann fetar. Hann væri ófær um að fara aðra leið.

Sá sem ekki hefur tekið á móti geisla hreinleikans, til hans ratar aldrei geisli ástar Guðs!

En maðurinn eignaði sér engu að síður barnseðlið er hann sneri baki við ljósinu með einstrengingslegri skilningshyggju sinni sem hann lagði allt það í sölurnar fyrir sem hefði getað hafið hann upp, og þannig hlekkjaði hann sig með þúsund hlekkjum við þessa jörð, það er að segja við grófgerðan efnisheiminn sem heldur honum föngnum uns hann leysir sjálfur fjötra sína, sem gerist þó ekki með jarðnesku andláti hans heldur eingöngu með vakningu andans.