Aðfaraorð!

Bindið fellur frá augum og trú verður að sannfæringu. Aðeins í sannfæringunni er frelsun og endurlausn að finna!

Ég beini orðum mínum einungis til þeirra sem leita af einlægni. Þeir verða að vera færir um og fúsir til að sannprófa málefnalega það sem málefnalegt er! Trúarofstækismenn og ístöðulausir sveimhugar haldi sig fjarri, því þeir eru skaðlegir sannleikanum. Um eðli illgjarnra og ómálefnalegra nægir að vísa í orðanna hljóðan.

Boðskapurinn nær aðeins til þeirra sem enn eiga innra með sér sannleiksvott og þrána eftir að verða manneskjur í reynd. Öllum þessum verður sannleikurinn ljós þeirra og stafur. Hann leiðir þau rakleitt út úr óreiðu þess glundroða sem nú ríkir.

Umfjöllunin sem hér fer á eftir færir ykkur ekki nýja trú heldur á hún að vera kyndill öllum einlægum áheyrendum eða lesendum, til þess að finna réttu leiðina sem færir þá til langþráðra hæða.

Aðeins sá sem leggur sig fram tekur andlegum framförum. Dárinn, sem notar til þess aðfengin hjálpartól svo sem tilbúnar skoðanir annarra, staul­ast aðeins leiðar sinnar sem á hækjum en nýtir ekki til þess eigin heilbrigðu fætur.

En um leið og hann beitir öllum þeim kostum sem í honum búa og bíða þess að gegna kalli hans til að verða honum að liði í uppbyggingarferli, nýtir hann þá hæfileika sem skaparinn trúði honum fyrir og sigrast leikandi á öllum hindrunum sem á vegi hans verða og glepja honum sýn.

Vaknið því! Rétta trú er aðeins að finna í sannfæringunni, og sannfæring sprettur eingöngu af miskunnarlausu mati og sannprófun! Verið lifandi í dásamlegu sköpunarverki Guðs ykkar!

Abd-ru-shin