Að þegja

Vakni skyndilega hjá þér hugmynd skaltu varðveita hana með sjálfum þér, berðu hana ekki á borð undir eins heldur nærðu hana; því í varkárni og þögn þéttist hún og eflist að þrótti eins og gufa undir þrýstingi.

Þrýstingurinn og þéttingin valda segulmagnandi áhrifum samkvæmt lögmálinu um að allt sem sterkara er dregur til sín það sem veikara er. Áþekkar hugmyndir dragast þannig að henni úr öllum áttum, er haldið föstum, og efla þannig stöðugt þrótt upphaflegu hugmyndar þinnar en hafa engu að síður þau áhrif að frumhugmyndin slípast til með tilkomu aðfengnu hugmyndanna, breytist og þroskast. Þú verður alls þessa áskynja innra með þér, en finnst þó stöðugt sem þetta lúti allt vilja þínum. En ekkert lýtur fyllilega vilja þínum, ytri áhrif eiga þar alltaf hlut að máli!

Hvað má af þessu ferli læra?

Að eitthvað sem fullkomið er getur aðeins orðið til þegar einstakir þættir þess koma saman! Orðið til? Er það rétt? Nei, heldur mótað! Því í reynd verður ekkert nýtt til, allt sem um ræðir er aðeins endurmótun, þar eð þættirnir eru allir fyrir hendi í sköpunarverkinu. Það þarf aðeins að færa þessa einstöku þætti saman í þágu fullkomnunarinnar, og það gerist með samþættingunni.

Samþætting! Taktu þessu ekki af kæruleysi, reyndu heldur að tileinka þér þá hugsun að þroski og fullkomnun náist með samþættingu. Setning þessi blundar í öllu sköpunarverkinu eins og djásn sem vill verða sýnilegt! Hún er nátengd lögmálinu um að sá einn getur þegið sem gefur! Og hver er forsenda þess að fá skilið áðurnefnda setningu? Upplifunin? Væntumþykja! Og þess vegna er ástin æðsta afl, ótakmarkaður máttur í leyndardómum tilverunnar miklu!

Á sama hátt og samþætting einnar tiltekinnar hugsunar myndar, slípar og mótar, þannig er því einnig varið hjá manninum sjálfum og öllu sköpunarverkinu sem í gegnum mátt viljans upplifir nýmyndanir úr óþrjótandi samþættingu einstakra forma og verður með því móti að veginum til fullkomnunar.

Einn einstakur færir þér ekki fullkomnun, en hins vegar mannkynið allt með fjölbreytni sérkennanna! Hver og einn býr yfir einhverju því sem er skilyrðislaus hluti heildarinnar. Og því er það svo að hinn þroskaði, sem ekki er lengur haldinn öllum jarðneskum þrám, lætur sér annt um allt mannkynið en ekki einn einstakan, því það er eingöngu allt mannkynið sem heild, sem er fært um að láta hreina strengi þroskaðrar sálu hans óma í takt við himneskan samhljóminn. Í honum býr samhljómurinn, því slegið er á alla strengi.

Hverfum nú aftur til hugsunarinnar sem laðaði að sér utanaðkomandi form og varð við það sífellt sterkari. Orkubylgjur hennar ná að lokum langt út fyrir þig, rjúfa geislahjúp þíns sjálfs og hafa áhrif á umhverfi þitt.

Þetta nefnir mannkynið segulhrif einstaklingsins. Fáfróðir orða þetta svo: »Þú geislar einhverju frá þér!«. Allt eftir eðli sínu, neikvæðu eða jákvæðu. Aðlaðandi eða fráhrindandi. Tómið fyllist!

En þú geislar engu frá þér! Það sem vekur með öðrum þessa tilfinningu, á rætur sínar í því að þú laðar með segulhrifum að þér allt sem er sömu andlegu gerðar. Og nærstaddir verða þessa aðdráttarafls áskynja. En einnig hér er um víxlverkunina að ræða. Hinir finna vegna tengslanna fyrir styrk þínum og með þeim vaknar af þeim sökum »samkennd«.

Hafðu stöðugt hugfast: Allt andlegt er, samkvæmt okkar hugtökum, segulmagnað, og þér er einnig kunnugt um að það sterkara hefur alltaf sigur yfir hinu veikara vegna aðdráttarafls síns. Með þessu móti »verður meira að segja fátækur maður sviptur því litla sem hann á«. Hann verður öðrum háður.

Hér er ekki ranglæti á ferð heldur guðleg lögmál að verki. Maðurinn þarf aðeins að taka sér tak, vilja af heilum hug, og þá er hann hólpinn.

Nú spyrð þú væntanlega: En hvað ef allir vilja vera sterkir? Ef ekkert er lengur af neinum að hafa? Þá, kæri vin, taka við sjálfviljug skipti sem byggja á því lögmáli að sá einn getur þegið sem gefur. Þetta leiðir ekki til kyrrstöðu heldur hverfur allt sem verðlítið er.

Af því hlýst að vegna sljóleika síns verður margur öðrum andlega háður, og er þess jafnvel oft að endingu ekki megnugur að hugsa sjálfstæða hugsun.

Hér skal ítrekað að aðdrátturinn nær aðeins til fyrirbæra sömu gerðar. Þaðan kemur máltækið: »Sækjast sér um líkir«. Þannig dragast drykkjumenn hver að öðrum, reykingamenn finna til »samkenndar«, blaðurskjóður, léttlyndir og svo framvegis, en einnig þeir sem vandaðri eru sameinast um háleitt markmið.

Og þetta heldur áfram: Andleg viðleitni hefur að endingu líka áþreifanlegar afleiðingar vegna þess að allt andlegt tekur á sig mynd þess grófgerða, og í því sambandi verðum við að hafa í huga lögmál afturvirkninnar, því hugsun er í stöðugum tengslum við uppruna sinn og kemur þannig af stað endurkasti.

Hér er ég einungis að fjalla um raunverulegar hugsanir sem fela í sér lífsþrótt sálrænnar tilfinningar. Ekki um orkusóun heilabúsins sem þér var gefið sem verkfæri, heilabús sem aðeins nær að móta hverfular hugsanir, sem birtast sem benda af óskýrum þokuslæðingi, og leysast sem betur fer von bráðar upp. Þess kyns hugsanir kosta þig bæði tíma og kraft og með þeim sólundarðu gæðum sem þér var trúað fyrir.

Veltirðu til dæmis af fullri einbeitingu fyrir þér tilteknu viðfangsefni þá segulmagnast þessi hugsun mjög innra með þér fyrir tilstilli krafts þagnarinnar, laðar að sér allar hliðstæður sínar og frjóvgast við það. Hún kemst til þroska og stígur út fyrir ramma vanans, brýtur sér þannig meira að segja leið yfir í aðrar víddir og verður þar fyrir aðstreymi æðri hugsana … innblæstri! Grunnhugsun innblásturs verður þar af leiðandi alltaf að koma frá þér, andstætt störfum miðilsins, verður að reisa brú yfir til handanheima, andlegra heima, til að bergja þar meðvitað af þeirra brunni.

Innblástur á því ekkert skylt við miðilsstörf.

Fyrir tilstilli innblásturs nær hugsun þín fullum þroska. Þú tekst á við það að raungera hugsunina og með krafti þínum nærðu að þétta það sem áður sveif um himingeiminn í ótal einstökum hugsanamyndum.

Á þennan hátt skaparðu með samþættingu og þéttingu nýja mynd úr því sem áður var til! Þannig breytist aðeins ásýnd fyrirbæranna innan sköpunarverksins því allt annað er eilíft og óumbreytanlegt.

Varastu óskýrar hugsanir, einkum flatneskju hugans. Hverfulleiki hefnir sín grimmilega því hann lítillækkar þig fljótt og gerir þig að leikvangi ytri áhrifa og þú verður hæglega viðskotaillur, duttlungafullur og ósanngjarn við þá sem í kringum þig eru.

En haldirðu ótrauður fast við raunverulega hugsun þá mun að endingu samanlagður krafturinn ná að fullgera hana, vegna þess að allt sem á sér stað fer fram á andlega sviðinu, þar eð sérhver kraftur er einungis andlegs eðlis! Það sem þá birtist þér eru aðeins afleiðingar undangengins andlegs-segulmagnaðs ferlis sem vinnur jafnt og þétt samkvæmt fastákveðinni skipan.

Hafðu augun hjá þér, og ef þú hugsar og skynjar verður þér brátt ljóst að eiginlegt líf býr í reynd aðeins í því sem andlegt er og að eingöngu þar er uppruna og þróun að finna.
Þú verður að sannfærast um að allt það sem þú sérð með augum líkamans eru í reynd afleiðingar andans sem eilíft er að störfum.

Hver einasta athöfn, meira að segja minnsta hreyfing mannsins, er af viljans völdum. Líkamarnir gegna þar aðeins hlutverki verkfæra sem andinn blæs lífi í, sjálf náðu þau ekki að þéttast nema fyrir tilstilli andlegra krafta. Sama gildir um tré, berg og jörðina alla. Skapandi andinn lífgar allt við, flæðir um allt, knýr allt.

En úr því að allur efnisheimurinn, það er að segja allt sem sýnilegt er hér á jörð, er aðeins afleiðing andlegs lífs, þá reynist þér ekki erfitt að skilja að jarðneskar aðstæður mótast af eðli þess andlega lífs sem lifað er í næsta nágrenni þeirra. Rökrétt afleiðing þessa er augljós: Í sköpunarverkinu er hlutum svo haganlega fyrir komið að manninum er sjálfum gefinn máttur til að móta eigin aðstæður með krafti sjálfs skaparans. Vel sé honum, ef hann nýtir þennan mátt aðeins til góðra verka! En vei honum, láti hann glepjast til að beita honum í illum tilgangi!

Andi mannsins er aðeins umlukinn og myrkvaður vegna jarðneskra langana sem loða við hann eins og gjall, fergja og draga hann niður. Hugsanir hans eru athafnir viljans og í þeim býr kraftur andans. Manninum er í sjálfsvald sett hvort hann hugsi gott eða illt, og getur þannig beint guðlegum krafti til góðs eða ills! Í þessu er ábyrgðin fólgin sem maðurinn axlar, því undan umbun eða refsingu hennar vegna fær hann ekki vikist vegna þess að allar afleiðingar hugsana hans hverfa aftur til uppruna síns vegna víxlverkunarinnar sem er að verki og aldrei sefur og sem ekkert fær stöðvað né haggað. Og verður ekki mútað, er ströng, réttlát! Er ekki það sama sagt um Guð?

Þó svo að margir trúarandstæðingar vilji ekki lengur við guðlegan mátt kannast þá breytir það ekki í neinu þeim staðreyndum sem ég tilgreindi. Fólki nægir að fella brott orðið »Guð«, sökkva sér af einlægni niður í vísindin og þá hittir það fyrir nákvæmlega það sama, aðeins orðað á annan hátt. Er ekki hjákátlegt að ætla síðan að efna til deilna um það mál?

Undan náttúrulögmálunum verður ekki vikist, gegn þeim megnar enginn að andæfa. Guð er mátturinn sem knýr náttúrulögmálin, mátturinn sem enginn hefur enn numið, séð, en áhrif hans hlýtur sérhver maður að sjá, skynja og verða var við dag hvern, hverja stund, já á hverju sekúndubroti, ef hann aðeins vill sjá, í sjálfum sér, í hverju dýri, hverju tré, hverju blómi, hverri æð laufblaðsins þegar það brýst út úr brumhlíf sinni mót ljósinu.

Er það ekki blindni að streitast hatrammlega hér á móti þegar hver einasti maður, líka þessir þrjósku afneitarar, staðfestir og viðurkennir tilvist þessa máttar? Hvað er það sem hindrar þá í að nefna þennan viðurkennda mátt Guð? Er það barnaleg þvermóðska? Eða ákveðin skömm yfir því að þurfa að viðurkenna að þeir hafi allan tímann reynt að afneita

hatrammlega því sem þeir vissu í byrjun að var til?

Sennilega ekkert af þessu. Orsökin liggur ugglaust í því að mannkyninu hafa úr ótal áttum verið sýndar afskræmdar myndir af guðdómnum mikla en mannkynið aldrei við nánari íhugun getað fellt sig við þær. Allt umvefjandi og alls staðar nálægur máttur guðdómsins er lítillækkaður og vanvirtur við það að reyna að myndgera hann!

Þegar grannt er skoðað verður honum ekki lýst með myndum! Það er einmitt vegna þess að sérhver maður hefur í sér fólgna hugmyndina um Guð, að hann streitist meðvitað gegn þeirri viðleitni að þrengja að mikla, óskiljanlega mætti hans sem skóp manninn og leiðir.

Það er trúarkenningin sem ber ábyrgð á stórum hluta þeirra sem í andstöðu sinni fara yfir markið, mjög oft gegn betri vitund.

En stundin er ekki langt undan þegar andinn vaknar! Þegar orð lausnarans verða rétt túlkuð, störf hans sem endurlausnara rétt skilin, því Kristur færði endurlausn úr myrkrinu er hann vísaði okkur veginn í átt til sannleikans, vísaði sem maður veginn til bjartra hæða! Og með blóði sínu á krossinum innsiglaði hann sannfæringu sína!

Sannleikurinn hefur aldrei verið annar en hann var þá og er enn í dag og verða mun um árþúsund, því hann varir að eilífu!

Því skuluð þið læra að þekkja lögmálin sem fólgin eru í hinu mikla riti sköpunarverksins. Að lúta þeim merkir: Að elska Guð! Því þar með rýfurðu ekki samhljóminn heldur áttu þátt í að lyfta ólgandi hljómnum í hæstu hæðir.

Og hvort sem þú nú segir: Ég lýt sjálfviljugur ríkjandi náttúrulögmálum því það er mér fyrir bestu, eða hvort þú segir: Ég lýt þeim vilja Guðs sem opinberast í náttúrulögmálunum, eða: Þeim óskiljanlega mætti sem knýr náttúrulögmálin … verður ekki niðurstaðan sú sama? Mátturinn er til staðar og þú viðurkennir tilvist hans, verður að viðurkenna tilvist hans því þú átt engra annarra kosta völ hugsirðu þig um … og þar með viðurkennirðu Guð þinn, skaparann!

Og máttur þessi er einnig að störfum í þér er þú hugsar! Beittu honum því ekki til illra verka, heldur góðra! Gleymdu aldrei: Þegar þú hugsar nýtirðu guðlegan mátt sem gerir þér kleift að ná því hreinasta, hæsta!

Freistastu aldrei til að gleyma því að allar afleiðingar hugsana þinna lenda ævinlega á þér síðar meir, allt eftir krafti, stærð og umfangi áhrifa hugsananna, til góðs og til ills.

En þar sem hugsanirnar eru andlegs eðlis snúa afleiðingarnar aftur í andlegri mynd. Þú verður þar af leiðandi fyrir þeim, hvort heldur hér á jörð eða eftir brottför þína í andlegum víddum. Enda eru þær, andlegs eðlis, ekki bundnar við efnisheiminn. Af því leiðir að niðurbrot líkamans kemur ekki í veg fyrir að afleiðinganna gæti! Launin skila sér sannarlega sem endurgjöf, fyrr eða síðar, hér eða örugglega fyrir handan.

Andlega tengingin við allar gjörðir þínar helst við lýði, því jarðneskar, efniskenndar gjörðir eiga sér andlegan uppruna í hugsununum sem þær spruttu úr og munu lifa, einnig eftir að allt jarðneskt er horfið á brott. Því segir réttilega: »Gjörðir þínar munu fylgja þér, hafi uppruni þeirra ekki hitt þig fyrir nú þegar, sem endurkast.«

Sértu enn, eða á ný, hér á jörð þegar endurkastið berst, þá bitnar kraftur afleiðinganna frá andlega sviðinu allt eftir eðli málsins, í góðu sem í illu, ýmist á aðstæðum þínum, umhverfi þínu eða beint á þér sjálfum, líkama þínum.

Enn á ný skal ítrekað sérstaklega: Hið sanna eiginlega líf á sér stað í andlegum víddum! Og það þekkir hvorki tíma né rúm og því heldur enga aðgreiningu, skil. Það er hafið yfir jarðnesk hugtök. Þar af leiðandi hitta afleiðingarnar þig fyrir hvar sem þú ert, á þeim tímapunkti þegar eilíf lögmál segja að afleiðingar skuli leita til upphafs síns. Þar glatast ekkert, allt skilar sér.

Það vekur aftur upp spurninguna sem svo oft er varpað fram um það hvernig það megi vera að grandvart fólk skuli oft þurfa að líða svo þungar þrautir í jarðlífi sínu að ranglátt megi teljast. Það verður að líða fyrir fyrri hugsanir!

Nú þekkirðu svarið við þessari spurningu, því viðkomandi líkami skiptir þar engu máli. Líkami þinn er ekki þú sjálf(ur), hann er ekki þitt »ég« heldur verkfæri sem þú kaust þér eða hlaust að taka þér, allt eftir svífandi lögmálum andlegs lífs, sem þú getur nefnt alheimslögmál, ef þú átt hægara með að skilja þau á þann veg. Jarðtilvistin hverju sinni er aðeins stutt skeið á raunverulega ferli þínum.

Það væri niðurdrepandi tilhugsun, ef ekki kæmi til undankomuleið, máttur sem varist gæti slíku. Þá myndi margur staldra við þegar hann vaknaði til andlegs lífs, og óska þess að fá heldur að sofa áfram vært í fyrri vanagangi. Hann veit ekki hvað bíður hans, hverju hann á eftir að verða fyrir í endurkasti sínu frá fyrri tíð! Eða eins og mennirnir komast að orði: »Þá yfirbót sem hann á eftir að vinna.«

En óttist ekki! Með því að vakna til vitundar er þér í mildi sköpunarverksins einnig búin undankomuleið með mætti hins góða vilja sem ég benti sérstaklega á, sem mildar ógnir þær sem stafa af uppruna körmunnar, eða vísar þeim frá að fullu.

Einnig það lagði andi Föðurins þér í hendur. Máttur hins góða vilja umlykur þig og er þess megnugur að sundra aðsteðjandi ógnum eða milda þær að stórum hluta, nákvæmlega eins og þegar lofthjúpurinn verndar jörðina.

En kraftur hins góða vilja, þessi öfluga vörn, er til kominn og eflist fyrir mátt þagnarinnar.

Því kalla ég enn til ykkar, sem leitið:

»Haldið hreinni uppsprettu hugsana ykkar og leggið fyrst og fremst rækt við ofurmátt þagnarinnar, kjósið þið að komast áfram«.

Faðirinn
sáði í brjóst ykkar þeim krafti sem þarf til allra hluta! Þið þurfið aðeins að nýta hann!