Dýrkun er ætlað að vera kerfisbundin viðleitni til að gera jarðarbúum óskiljanleg fyrirbæri skiljanleg á einhvern hátt.
Formgerðri viðleitni er ætlað að vera það, en er það því miður ekki, því annars væri margt fyrirbæri öðru vísi en nú er, ef það væri sprottið af þeirri viðleitni. Rétti vegurinn er beinlínis forsenda ytri forma þeirra atburða sem sprottnir eru af innri hræringum. Hins vegar eru öll þau fyrirbæri sem við sjáum í dag byggð upp á forsendum skynseminnar, og síðan er tilfinningunum þröngvað upp á þau. Þannig að farið er öfuga leið að hlutunum, sem eins mætti orða svo að farin væri vitlaus eða röng leið að hlutunum, sem aldrei getur orðið lifandi í reynd.
Þannig verður svo margt þunglamalegt og uppáþrengjandi, sem, væri það öðru vísi mótað, líktist mun frekar hinum eiginlega vilja og yrði þá fyrst meira sannfærandi.
Margt af því sem er vel meint verður fráhrindandi í stað þess að vera sannfærandi vegna þess að því hefur enn ekki verið fundið rétt form, sem skynsemin getur aldrei fundið því sem ekki verður skilið jarðneskum skilningi!
Þannig er það einnig í kirkjunum. Þar er hlutur skynseminnar alltof áberandi, sem miðast við jarðnesk ítök, og við það glatar harla margt jákvætt áhrifamætti sínum vegna þess hversu óeðlilegt það virðist.
Óeðlilegt verður hins vegar aðeins það sem ekki er í samræmi við lögmál sköpunarverksins. Slíkir hlutir eru hins vegar mjög margir í þeirri dýrkun sem er að finna í dag, þar sem hreinlega allt sem er í andstöðu við náttúruleg lögmál sköpunarverksins er sveipað leyndardómsfullu myrkri.
En einmitt þetta, að mennirnir, ómeðvitað í umfjöllun sinni um slíka hluti, skuli aldrei minnast á leyndardómsfullt ljós heldur ævinlega aðeins á myrkur, þannig verður lýsing þeirra rétt, því ljósið þekkir enga dulúð, og því heldur engan leyndardóm sem til hafi orðið í sköpuninni, en hún er sprottin af fullkomnum vilja Guðs og starfar öðrum óháð í óhaggandi takti, né á dulúð þar nokkurt rúm. Ekkert er jafn skýrt saman ofið og einmitt sköpunarverkið, sem er verk Guðs!
Í því liggur leyndarmálið að árangri og tilvist eða hruni. Hvarvetna þar sem byggt er á þessum lifandi lögmálum
sköpunarverksins koma þau til hjálpar, stuðla að árangri og viðhalda tilvistinni. En þar sem ekki er farið að þessum lögmálum, hvort heldur af vanþekkingu eða sérvisku, kemur óhjákvæmilega til hruns, fyrr eða síðar, vegna þess að ekkert fær staðið til frambúðar sem ekki stendur á traustum, óhagganlegum grunni.
Þess vegna eru svo mörg mannanna verk forgengileg, sem ekki þyrfti svo að vera. Þar á meðal má nefna dýrkun af mörgu tagi, sem hlýtur alltaf að vera breytingum undirorpin, eigi hún ekki að hrynja til grunna.
Með orðum sínum færði guðssonurinn mönnum hér á jörð, á eins einfaldan og skýran hátt og hugsast getur, rétta veginn sem þeir skuli feta á vegferð sinni í samræmi við þann vef sem sköpunarverkið er, til þess að láta lögmál Guðs, sem birtast í vef sköpunarverksins, leiða sig áfram og lyfta sér upp í bjartari hæðir, til þess að varðveita frið og gleði á jörð.
En því miður héldu kirkjurnar sig ekki á þeirri braut endurlausnar mannkynsins sem guðssonurinn hafði sjálfur útlistað og fært þeim, heldur bættu þær inn í kenningu hans ýmsu úr eigin hugarheimi og ollu þar með að sjálfsögðu glundroða, sem hlaut að leiða til klofnings vegna þess að
hugarheimur þeirra fylgdi ekki lögmálum sköpunarverksins og er því, eins undarlega og það nú kann að hljóma, í andstöðu við skýra kenningu guðssonarins, sem þeir, sem kristnir menn, þó kenna sig við.
Þetta á meðal annars við um maríudýrkun kristinna manna páfans. Hefur Jesús, sem kenndi mönnunum allt, hvað þeir skyldu hugsa og aðhafast, já meira að segja hvernig þeir skyldu mæla og biðja, í því skyni að gera hið rétta, sem í Guðs vilja felst, nokkurn tíma vikið einu orði að slíku? Nei, það hefur hann ekki gert! Og það er sönnun þess að hann vildi það ekki heldur, að það skyldi ekki svo vera!
Til eru meira að segja fullyrðingar hans sem sanna hið gagnstæða við það sem maríudýrkunin felur í sér.
Og kristnir menn vilja fyrst og fremst miða heiðarlegar gjörðir sínar við Krist, að öðrum kosti eru þeir ekki kristnir.
Ef nú mennirnir bæta enn fleiru við og ef kirkjur páfans hafast annað að en það sem Kristur bauð, þá eru þar komnar sannanir fyrir því að þessi kirkja setur sig í hroka sínum á hærri stall en guðssoninn, því hún leitast við að betrumbæta orð hans með því að bæta við athöfnum sem guðssonurinn vildi ekki, því annars myndi hann, miðað við allt það sem hann færði mönnunum, örugglega hafa boðað slíkt.
Það er vissulega til himnadrottning, sem eins mætti nefna frummóður, með orðfæri mannanna, en er þó búin hreinasta meydómi. Hún er hins vegar frá örófi í hæstu hæðum og hefur aldrei líkamnast á jörðu!
En það er útgeislun hennar, en ekki hún sjálf í raun og veru sem skelfingu lostnir menn geta hér og hvar »séð« eða »orðið varir«. Í gegnum hana berst einnig oft aðstoð, svonefnd kraftaverk.
En jafnvel þroskaðasti mannsandi getur aldrei virt þessa frumdrottningu fyrir sér eins og hún er í eigin persónu, því sérhver tegund er aðeins fær um að sjá aðra sömu gerðar, samkvæmt óbreytanlegum lögmálum sköpunarverksins. Þannig er jarðneskt auga einungis fært um að sjá það eitt sem jarðneskt er, auga fínkennda efnisheimsins aðeins það sem fínlegt er, andlegt auga aðeins það sem andlegt er og svo framvegis.
Og þar eð mannsandinn er aðeins fær um að nema það sem andlegt er, sem hann sjálfur er sprottinn úr, þá er honum í reynd ókleift að virða fyrir sér frumdrottninguna sem er af mun æðri uppruna, heldur, veitist honum einhvern tíma sú náð, aðeins andlega geislamynd hennar, sem birtist þó sem lifandi og svo mögnuð að kraftaverki líkist þar sem frjóan jarðveg fyrir slíkt er að finna, í óbifanlegri trú eða dýpstu hræringu sorgar og gleði.
Þetta liggur í eðli starfa sköpunarverksins sem upprunnið er í vilja Guðs og sem hann ber uppi. Í þessu starfi er einnig að finna alla hjálp sem mannkyni hlotnast frá upphafi og um alla eilífð, snúi menn ekki baki við því í oflæti sínu.
Guð er að störfum í sköpunarverkinu, því það er fullkomið verk hans.
Og einmitt úr þessari fullkomnun hlaut að koma til jarðneskrar fæðingar sonar Guðs að undangengnum jarðneskum getnaði. Sá sem heldur hinu gagnstæða fram dregur í efa fullkomleika verka Guðs, og þar með einnig fullkomleika Guðs sjálfs, en af vilja hans er sköpunarverkið sprottið.
Óflekkaður getnaður er getnaður í hreinustu ást, sem er andstæða getnaðar í syndsamlegum losta! En á jörðu er engin fæðing án getnaðar.
En gæti jarðneskur getnaður í eðli sínu ekki verið óflekkaður, þá bæri að líta á allt móðurhlutverkið sem saurgun!
Í sköpunarverkinu talar Guð til okkar, lýsir þar skýrt vilja sínum.
Það er skylda mannsins að skynja þennan vilja. Og guðssonurinn vísaði í heilögu orði sínu rétta veginn þangað vegna þess að maðurinn keppti ekki að því marki og flæktist því sífellt meir í lögmálum sköpunarverksins.
Þessi óbifanlegi vefur sköpunarverksins hlaut með tíð og tíma að tortíma manninum út af fáfræði og rangri notkun, en lyftir honum upp, lifi maðurinn samkvæmt vilja Guðs.
Umbun og refsingu mannsins er að finna í vef sköpunarverksins sem lýtur stöðugt sömu leiðsagnar vilja Guðs. Þar er einnig að finna höfnun hans eða endurlausn! Hann er óbifanlegur og réttlátur, óhlutdrægur, án geðþótta.
Þar er einnig að finna ólýsanlega stærð Guðs, ást hans og réttlæti. Það er að segja í verki hans, sem hann eftirlét mönnunum, auk annarra hluta, sem íverustað og heimkynni.
Nú er sú stund runnin upp að maðurinn verður að komast til vitneskju um þetta, svo hann komist í fyllstu sannfæringu að raun um störf Guðs, sem birtast í verki hans!
Þá mun sérhver jarðarbúi standa óhagganlegur og fullur sköpunargleði hér á jörð og horfa þakklátum augum upp til Guðs, því að skynjunin tengir hann um alla eilífð í gegnum þekkinguna!
Til að miðla fólki slíkri þekkingu sem veitir honum yfirgripsmikla og skiljanlega og sannfærandi lýsingu á eðli starfa Guðs í réttlæti hans og ást, skrifaði ég bókina »Í ljósi sannleikans« þar sem ekkert er undanskilið, sem á svar við sérhverri spurningu, sem lýsir á skýran hátt hversu dásamlegir vegir sköpunarverksins eru þar sem finna má marga þjóna vilja hans.
En aðeins Guð er heilagur!