Þetta er alltaf ein af fyrstu spurningunum vegna þess að lang flestu fólki er allt of gjarnt að leitast við að varpa frá sér sérhverri ábyrgð og þá yfir á hvað eina annað en sjálft sig. Það skeytir ekkert um að þar með lítillækkar það sjálft sig. Í þessum efnum er þeir hinir sömu mjög svo auðmjúkir og lítillátir, en í þeim tilgangi einum að geta í staðinn lifað í enn meiri léttúð.
Það væri svo gaman að mega láta allar óskir sínar rætast og svala öllum fýsnum sínum, einnig gagnvart meðbræðrum sínum, í mestu makindum og án yfirbótar. Þegar mikið liggur við er hægt að sniðganga jarðnesk lög og sneiða hjá ágreiningi. Þeir sem leiknari eru geta meira að segja leitað fanga með góðum árangri og tekið sér eitt og annað fyrir hendur sem ekki stæðist nokkra siðferðislega prófun. Oft hafa þeir meira að segja orð á sér fyrir að vera einstaklega duglegir.
Það væri því eiginlega með nokkurri
kænsku hægt að lifa harla þægilegu lífi að eigin mati, ef … ekki leyndist undir niðri eitthvað það sem vekti ónot, ylli tímabundnum ugg, vegna þess að margt gæti þrátt fyrir allt verið eilítið öðruvísi en óskir manns sjá fyrir sér.
Og þannig er það líka! Raunveruleikinn er harður og miskunnarlaus. Óskir okkar fá engu þar um breytt. Lögmálið stendur óhagganlegt: »Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera!«
Í þessum örfáu orðum felst svo miklu meira en margur hyggur. Ekkert lýsir jafn skýrt þeirri víxlverkun sem fram fer í reynd og býr í sköpunarverkinu. Þessu verður ekki betur lýst með öðrum orðum. Eins og uppskeran skilar því margfalt sem sáð var, þannig fær maðurinn sífellt margfalt til baka þær tilfinningar sem bærðust með honum og hann geislaði frá sér, allt eftir gerð ásetnings hans.
Maðurinn ber því andlega ábyrgð á öllu sem hann aðhefst. Til ábyrgðarinnar er stofnað þegar ákvörðunin er tekin, ekki aðeins þegar verknaður hefur verið framinn, sem er aðeins afleiðing ákvörðunarinnar. Og ákvörðunin táknar að einlægur ásetningur rís af svefni!
Það eru ekki til nein skil milli hérheima og svokallaðra þarheima, heldur er allt ein stór tilvist. Stórt, mikilfenglegt sköpunarverkið, manninum sýnilegt og ósýnilegt, gengur á undraverðan og einstakan hátt eins og óbilandi gangverk þar sem hvað grípur í annað, ekki sem stakir ótengdir hlutir. Samfléttuð lögmál bera uppi heildina, liggja eins og taugaþræðir um allt, halda öllu saman og ræsa hvert annað í stöðugri víxlverkun!
Þegar skólar og kirkjur fjalla um himin og hel í þessu sambandi, um Guð og djöfulinn, þá hafa þau á réttu að standa. Hins vegar er fullyrðing um góða og illa krafta röng. Slíkt hlýtur að vekja með sérhverjum einlægum leitanda grun um villur og efasemdir, því þar sem tveir kraftar eru, hljóta eðlilega líka að vera tveir drottnarar, í þessu tilviki þá tveir guðir, annar góður og hinn illur.
En þannig er það ekki!
Til er aðeins einn skapari, einn Guð, og þar af leiðandi aðeins einn kraftur sem streymir um allt, lífgar og hvetur!
Þessi hreini skapandi guðskraftur streymir í sífellu um allt sköpunarverkið, býr í því, verður ekki greint frá því. Hann er alls staðar: Í andrúmsloftinu, í sérhverjum vatnsdropa, í berginu sem myndast, jurtinni sem dafnar, dýrinu og vitaskuld einnig í manninum. Það er ekkert til þar sem hann er ekki.
Og þar eð hann streymir um allt, streymir hann einnig án afláts um manninn. Maðurinn er hins vegar þannig gerður að honum má líkja við sjóngler. Líkt og sjóngler safnar saman sólargeislum þeim sem gegnum það streyma og beinir yljandi geislunum að einum punkti þannig að þeir svíði þar og tendri bál, safnar maðurinn vegna einstakrar gerðar sinnar saman sköpunarkraftinum, sem um hann streymir, gegnum tilfinningar sínar og beinir honum áfram með hugsunum sínum.
Allt eftir gerð þessara tilfinninga og hugsananna sem þeim tengjast beinir hann þar með sjálfstæðum sköpunarmætti Guðs til góðra eða illra gjörða!
Og það er ábyrgðin sem maðurinn verður að axla! Í því liggur einnig frjáls vilji hans!
Þið, sem í örvæntingu reynið svo oft að finna réttu leiðina, hvers vegna gerið þið ykkur það svona erfitt? Sjáið fyrir ykkur einföldu myndina af því hvernig hreinn kraftur skaparans streymir um ykkur og hvernig þið beinið honum með hugsunum ykkar ýmist í átt til góðs eða ills. Þar með er málið leyst, vandkvæðalaust og án heilabrota!
Minnist þess að það veltur einfaldlega á tilfinningum ykkar og hugsunum, hvort þessi mikli kraftur kalli fram gott eða illt. Sjáið hvílík hvetjandi eða óheillavaldandi völd ykkur eru þar með gefin!
Þið þurfið ekki að leggja það hart að ykkur að svitinn spretti fram á enninu, þurfið ekki að leggjast í svokallaðar dulspekiæfingar til þess að komast upp á eitthvert merkingarlaust stig sannra andlegra hæða með alls kyns mögulegum og ómögulegum fettum og brettum líkama og anda!
Hættið þessum tímafreka leikaraskap sem svo oft hefur snúist upp í pyntingar og kvöl sem eru ekkert annað en framhald á svipuhöggum og sjálfspyndingum klaustranna á árum áður. Þetta er aðeins önnur ásynd þeirra, og megnar ekki að færa ykkur neitt frekar.
Svokallaðir dulspekimeistarar og nemar eru farísear nútímans! Í hreinustu merkingu þess orðs. Þeir eru sönn spegilmynd faríseanna á dögum Jesú frá Nasaret.
Hugleiðið það í fölskvalausum fögnuði að þið getið án erfiðismuna haft áhrif á sjálfan máttugan sköpunarkraftinn með einföldum velviljuðum tilfinningum og hugsunum. Kraftinum verður síðan beitt í fullu samræmi við tilfinningar ykkar og hugsanir. Hann starfar einn og óstuddur, þið þurfið aðeins að stýra því hvert hann beinist.
Þetta gerist allt látlaust og án yfirlætis! Til þess þarf ekki þekkingu, meira að segja hvorki lestur né skrift. Ykkur er þetta öllum gefið, í jafn miklum mæli! Þar er enginn munur á.
Eins og barn getur leikandi stjórnað rafmagnsrofa og leyst þannig úr læðingi ógnarkrafta, á sama hátt er ykkur gefið að stjórna guðlegum krafti með einföldum hugsunum ykkar.
Þið getið glaðst yfir því, verið stolt af því, svo fremi sem þið nýtið það til góðs! En skjálfið af angist ef þið sólundið því og ekki síst ef þið nýtið það til óhreinna gjörða! Því þið komist ekki undan undirliggjandi lögmálum sköpunarverksins um víxlverkun. Og hvar sem þið mynduð reyna að dyljast, þá fyndi hönd Drottins ykkur ávallt, fyrir tilstilli sístarfandi víxlverkunar, hönd þess krafts sem þið væruð að misbeita.
Hið illa verður virkjað með sama hreina, guðlega krafti og hið góða!
Hverjum og einum er frjálst að beita þessum heildstæða guðlega krafti, og í því er fólgin ábyrgðin sem enginn fær vikist undan. Því kalla ég til sérhvers leitanda:
»Haltu hreinni uppsprettu hugsana þinna, á þann hátt stofnarðu til friðar og verður hamingjusamur!«
Fagnið, þið fákunnandi og veikburða, því ykkur er gefið sama vald og hinum sterku! Gerið ykkur þetta því ekki of erfitt! Gleymið því ekki að hreinn, sjálfstæður kraftur Guðs streymir líka um ykkur, og að þið sem menn eruð einnig fær um að beina þessum krafti í ákveðna átt allt eftir eðli innri tilfinninga ykkar, það er að segja ásetnings ykkar, til góðs eða ills, skelfandi eða græðandi, veita gleði eða þraut!
Þar sem til er aðeins þessi eini kraftur, skýrist líka leyndardómurinn um það hvers vegna myrkrið verður að víkja fyrir ljósinu, bölið fyrir því góða í sérhverri lokabaráttu. Ef þið beinið krafti Guðs til góðs, helst hann óflekkaður og hreinn eins og í upphafi og myndar þannig enn sterkari kraft, en ef hann flekkast og spillist missir hann jafnframt þrótt. Í lokabaráttu verður það ávallt hreinleiki kraftsins sem á reynir og úrslitum ræður.
Hvað gott er og hvað illt, það skynjar hver og einn fram í fingurgóma, hljóðlaust. Að brjóta heilann um slíkt myndi aðeins valda ruglingi. Óskýr heilabrot eru orkusóun, eins og fen, þykkt forað sem læsir sig um og lamar allt sem nærri því kemur og kæfir það. Hressileg glaðværð tætir hins vegar í sundur álög heilabrotanna. Þið þurfið ekki að vera sorgmædd og niðurbrotin!
Þið getið hvenær sem er lagt af stað í förina til upphæða og bætt fyrir misgjörðir, hverjar svo sem þær eru! Aðhafist ekki annað en það að hugleiða framvindu hreins guðlegs kraftsins sem um ykkur streymir stöðugt, og þá munuð þið veigra ykkur við því að beina þessum hreina krafti í saurugar brautir illra hugsana, því að þannig tekst ykkur áreynslulaust að ná því hæsta og göfugasta. Þið þurfið ekki annað en að marka stefnuna, krafturinn sér sjálfur um að halda í þá átt sem þið beinið honum í.
Þannig er hamingjan eða óhamingjan í ykkar höndum. Berið því höfuðið hátt, með stolti, frjáls og djörf! Bölið nær ekki til ykkar, sé ekki á það kallað! Þau örlög sem þið kjósið, þau örlög munuð þið hljóta!